Innlent

Til­laga um að leggja af áminningar­skyldu sé van­virðing í garð starfs­fólks

Lovísa Arnardóttir skrifar
Frá vinstri: Kolbrún Halldórsdóttir er formaður BHM, Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambands Íslands og Sonja Ýr Þorbergsdóttir er formaður BSRB.
Frá vinstri: Kolbrún Halldórsdóttir er formaður BHM, Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambands Íslands og Sonja Ýr Þorbergsdóttir er formaður BSRB. Vísir/Vilhelm

Forsvarsfólk BSRB, BHM og Kennarasambands Íslands, KÍ, gagnrýna í sameiginlegri yfirlýsingu að í tillögum hagræðingarhóps stjórnvalda sé fjallað um að leggja af áminningarskyldu í lögum um starfsmenn hins opinbera. Þau segja tillöguna vanvirðingu í garð opinberra starfsmanna. 

Þau segja í yfirlýsingu sinni að í stað þess að leggja regluna af ætti að víkka þessa reglu út þannig hún gilti einnig á almennum markaði. Þannig sé það á öðrum Norðurlöndum.

Formaður BHM sagði í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar að engir útreikningar væru að baki tillögum hópsins um opinbera starfsmenn. Fjallað er um það sömuleiðis í sameiginlegu yfirlýsingunni.

„Undanfarin ár hafa sérhagsmunahópar atvinnurekenda á almennum vinnumarkaði gert þá kröfu að ákvæði um áminningu verði fellt brott úr starfsmannalögum. Meginröksemdirnar hafa verið að jafna þurfi réttindi milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins og auka hagkvæmni í ríkisrekstri. Þessum kröfum hafa hins vegar ekki fylgt útreikningar eða greiningar á ætluðum sparnaði, sem veldur því að tillögurnar hafa ekki þótt trúverðugar,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar kemur jafnframt fram að opinberar stofnanir glími við margs konar vanda. Það sé mikil starfsmannavelta, hár meðalaldur og lítil nýliðun. Þá glími þau einnig við mikla veikindafjarveru og manneklu á sama tíma og aukning er að vera á störfum í umönnun vegna, meðal annars, öldrunar þjóðarinnar.

„Ljóst er að vandinn sem felst í skorti á starfsfólki mun bara aukast eftir því sem tíminn líður og sá skortur er kostnaðarsamur fyrir samfélagið allt.“

Þau segja eðlilegt, í ljósi tillagnanna, að spyrja hvort ríkisstjórnin ætli að horfa framan í hóp opinberra starfsmanna og segja þeim að „mikilvægasta verkefnið fram undan sé að gera stjórnendum auðveldara að segja þeim upp störfum.“

„Það er ekki bara pólitísk tillaga heldur vanvirðing í garð fólks sem hefur haldið velferðarkerfum samfélagsins gangandi gegnum erfiða tíma, nægir að nefna efnahagshrun, heimsfaraldur og náttúruhamfarir því til staðfestingar,“ segir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×