Skoðun

Björn til rektors

Benedikt Hjartarson skrifar

Óðum styttist í að gengið verði til rektorskjörs við Háskóla Íslands. Rektorskjörið í ár skiptir óvanalega miklu máli af ýmsum ástæðum. Þar má fyrst nefna langvarandi vanfjármögnun háskólans, en einnig stórfellda tilfærslu fjármagns frá Háskóla Íslands til vanhugsaðra gæluverkefna ráðherra á síðastliðnum árum, vandann við nýliðun og endurnýjun, sem og vaxandi áherslu á að háskólinn leggi fyrst og fremst rækt við það hlutverk að styðja við atvinnulíf í landinu. Allt þetta hefur staðið öflugu rannsóknastarfi fyrir þrifum og valdið gríðarlegu álagi á starfsfólk og innviði háskólastarfsins á síðastliðnum árum.

Sjaldan hefur verið jafn brýnt að háskólasamfélagið eigi sér sterka rödd í rektor Háskóla Íslands, sem talar af krafti fyrir sjálfstæði háskólans, akademísku frelsi og frelsi til rannsókna. Á sama hátt er brýnna en nokkru sinni fyrr að sú rödd láti í sér heyra í gagnrýninni þjóðfélagsumræðu svo eftir sé tekið. Margar áskoranir bíða einnig nýs rektors við að tryggja fjármögnun háskólans, bæta kjör og vinnuaðstæður starfsfólks, stuðla að nýliðun og uppbyggingu öflugs alþjóðlegs rannsóknastarfs.

Ég treysti engum betur en Birni Þorsteinssyni til að takast á við þessi verkefni af festu. Björn hefur víðtæka reynslu af kennslu og rannsóknastarfi innan Háskóla Íslands, þar sem hann hefur jafnframt sinnt ýmsum trúnaðar- og nefndarstörfum og starfað þvert á deildir. Ég hef fengið að kynnast vinnubrögðum hans á ólíkum vettvangi innan háskólasamfélagsins, jafnt í nefndavinnu, í ritstjórnarverkefnum, í kennslusamstarfi og við stjórn alþjóðlegra samstarfsverkefna sem notið hafa erlendra rannsóknastyrkja. Vinnubrögð Björns einkennast af fagmennsku og heilindum, víðsýni, sanngirni og staðfestu, en jafnvægi þessara ólíku þátta er mikilvægt veganesti til að takast á við þau brýnu verkefni sem bíða nýs rektors. Með kjöri Björns Þorsteinssonar til rektors er ég sannfærður um að háskólasamfélagið myndi stíga heillaskref í átt til öflugs rannsóknastarfs, þekkingaröflunar og virkrar samfélagslegrar þátttöku.

Höfundur er prófessor í almennri bókmenntafræði og menningarfræði við Háskóla Íslands.




Skoðun

Skoðun

Eflum mál­um­hverfi barna

Bjarnfríður Leósdóttir,Harpa Stefánsdóttir,Hildur Rut Sigurbjartsdóttir,Silja Jóhannsdóttir,Þorbjörg Saga Ásgeirsdóttir skrifar

Sjá meira


×