Íslenski boltinn

Breyta ekki því sem virkar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Makala Woods á að skora mörkin á Króknum í sumar.
Makala Woods á að skora mörkin á Króknum í sumar. University of Kentucky

Tindastóll hefur bætt við sig framherja fyrir komandi átök í Bestu deild kvenna. Framherjanum Makala Woods er ætlað að leiða framlínu liðsins og tekur við keflinu af fyrrum skólafélaga.

Woods er 23 ára gömul og hefur verið iðin við markaskorun með Kentucky-háskóla vestanhafs. Hún var markahæst háskólaliðsins með ellefu mörk á liðnu tímabili.

Woods kemur til með að fylla skarð Jordyn Rhodes sem var markahæst Tindastólsliðsins á síðustu leiktíð með tólf mörk í 21 leik. Tindastóll hafnaði í 8. sæti Bestu deildarinnar, fimm stigum fyrir ofan fallsvæðið. Keflavík og Fylkir féllu niður í næst efstu deild.

Woods er þriðji leikmaðurinn sem kemur frá Bandaríkjunum til Tindastóls í vetur. Áður samdi liðið við þýska miðjumanninn Nicolu Hauk, sem kom frá Nebraska-háskóla, og varnarmanninn Katherine Grace Pettet sem kom frá Pittsburgh.

Sama húsnæði, sama starfsemi

Woods kemur sömu leið og Rhodes en sú síðarnefnda kom einnig til Tindastóls úr Kentucky-háskólanum fyrir ári síðan.

Það er því sama uppskrift hjá Stólunum sem treysta á samskonar framlag frá öðrum nema Kentucky-háskólans.

Rhodes heillaði mjög síðasta sumar og fékk í gegn skipti til bikarmeistara Vals, en tilkynnt var um skipti hennar á Hlíðarenda í vikunni.

Keppni í Bestu deild kvenna hefst 15. apríl næst komandi. Tindastóll mætir nýliðum FHL í fyrsta leik á Króknum degi síðar, 16. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×