Körfubolti

Kippti í hár körfu­bolta­stelpu og var rekinn

Sindri Sverrisson skrifar
Jim Zullo kippti í hár eins af ungum leikmönnum sínum og hefur nú verið rekinn.
Jim Zullo kippti í hár eins af ungum leikmönnum sínum og hefur nú verið rekinn. Skjáskot/Twitter

Reynslumikill körfuboltaþjálfari í New York hefur verið rekinn eftir að hann greip utan um tagl stelpu sem hann þjálfaði og kippti í hárið. Þetta gerði hann þegar leikmaðurinn var grátandi eftir naumt tap, eins og sjá má á myndbandi.

Þjálfarinn heitir Jim Zullo og er aðalþjálfari Northville Falcons stelpnaliðsins í bandaríska menntaskólakörfuboltanum.

Liðið tapaði 43-37 fyrir LaFargeville á föstudaginn í úrslitaleik og var hin unga Hailey Monroe vonsvikin líkt og liðsfélagar hennar. Þær stóðu saman í línu þegar Zullo kom og kippti í hár Monroe með áberandi hætti.

Liðsfélagi Monroe kom henni til stuðnings og sýndi Zullo óánægju sína með ofbeldið.

Zullo, sem samkvæmt Sports Illustrated hafði þjálfað stráka og stelpur í New York í meira en fjörutíu ár, hefur nú verið rekinn.

Zullo hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann biðst afsökunar á hegðun sinni. Hann hafði í viðtali eftir leikinn sakað Monroe um að hreyta í sig blótsyrðum eftir að hann skipaði henni að þakka mótherjum sínum fyrir leikinn.

„Sem þjálfari þá er aldrei ásættanlegt að maður leggi hendur á leikmann og mér þykir þetta virkilega leitt. Ég vildi að ég gæti tekið þetta til baka,“ sagði Zullo sem er 81 árs gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×