Sport

Kristín bætti bronsi í safnið á Malaga

Sindri Sverrisson skrifar
Kristín Þórhallsdóttir með brons um hálsinn eftir mótið á Spáni í gær.
Kristín Þórhallsdóttir með brons um hálsinn eftir mótið á Spáni í gær. KRAFT

Kraftlyftingakonan og dýralæknirinn Kristín Þórhallsdóttir bætti enn við stórmótsverðlaunum í safn sitt þegar hún hlaut brons í hnébeygju á EM í Malaga á Spáni.

Kristín var í hópi Íslendinga sem kepptu á Evrópumótinu í klassískum kraftlyftingum. Hún keppti í -84 kg flokki og byrjaði á að lyfta þar 202,5 kg sem skilaði henni bronsverðlaunum.

Í bekkpressu lyfti Kristín mest 110 kg og í réttstöðulyftu fóru 215 kg á loft. Samtals lyfti þessi fyrrverandi Evrópumeistari því 527,5 kg sem skilaði henni 4. sæti í samanlögðum árangri.

Birgit Rós Becker keppti í sama þyngdarflokki og hafnaði í 13. sæti en samanlagður árangur hennar var 442,5 kg.

Í gær kepptu einnig tvær íslenskar konur í +84 kg flokki, þær Þorbjörg Mattíasdóttir og Hanna Jóna Sigurjónsdóttir, sem báðar bættu sinn persónulega árangur. Samanlagt lyfti Þorbjörg 510 kg og hafnaði í 6. sæti en Hanna var með 502,5 kg í samanlögðum árangri sem gaf henni 7. sætið.

Þá keppti Þorsteinn Ægir Óttarsson í +120 kg flokki en hann lyfti samanlagt 795 kg og hafnaði í 9. sæti.

Fyrr á mótinu stóð árangur Lucie Stefaniková upp úr hjá íslenska hópnum en hún vann gull og setti Evrópumet í hnébeygju og vann brons í samanlögðu, í -76 kg flokki. Evrópumet hennar í hnébeygju er 211 kg og hún lyfti samanlagt 563,5 kg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×