Sport

Ey­gló í þyngri flokki en samt best allra

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenski hópurinn rakaði til sín verðlaunum á Smáþjóðamótinu í lyftingum á Möltu.
Íslenski hópurinn rakaði til sín verðlaunum á Smáþjóðamótinu í lyftingum á Möltu. LSÍ

Þrátt fyrir að vera í miðjum undirbúningi fyrir EM, og geta því ekki keppt í sínum þyngdarflokki, þá vann Eygló Fanndal Sturludóttir sigur á Smáþjóðamótinu í ólympískum lyftingum á Möltu um helgina. Ísland vann liðakeppnina í þriðja sinn í röð.

Ísland vann einnig liðakeppni kvenna og varð í 2. sæti í liðakeppni karla.

Eygló varð stigahæst allra kvenna á mótinu og það þrátt fyrir að keppa í -76 kg flokki en yfirleitt keppir hún í -71 kg flokki. Hún létti sig ekki fyrir mótið, eins og hún myndi vanalega gera, vegna þess að hún er í miðjum undirbúningi fyrir EM sem fram fer í Moldóvu í apríl.

Eygló, sem er ríkjandi Evrópumeistari ungmenna og varð í 4. sæti á HM í desember, lyfti mest 106 kg í snörun um helgina og 130 kg í jafnhendingu en þar rétt missti hún lokatilraun sína, við 134 kg. Samanlagt lyfti Eygló því 236 kg og á hún nú öll þrjú Íslandsmetin í -76 kg flokki, rétt eins og í sínum vanalega þyngdarflokki.

Nálægt Norðurlandametum

Eygló tók metin af Guðnýju Björk Stefánsdóttur sem varð í 2. sæti í stigakeppni kvenna á mótinu á Möltu. Bergur Sverrisson varð í 2. sæti í stigakeppni karla.

Ef Eygló hefði náð 134 kg í jafhendingu, og verið að keppa í sínum -71 kg flokki, þá hefði verið um að ræða 1 kg bætingu á Norðurlandameti hennar í samanlögðu. Hún lyfti nefnilega samtals 239 kg þegar hún varð í 4. sæti á HM í desember.

Einnig hefði 134 kg verið bæting á Norðurlandameti Patriciu Strenius í jafnhendingu sem er 133 kg.

Ísland endaði með 1.244,02 stig á Smáþjóðamótinu, Malta með 1.195,80 stig, Kýpur með 1.158,09 stig, Færeyjar 1.047,80 stig, Lúxemborg með 958,74 stig, Mónakó með 766,53 stig og San Marínó með 752,20 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×