Skoðun

10 ár og bull í lokin

Jón Pétur Zimsen skrifar

Af hverju fá börn og unglingar ekki að njóta sannmælis? Af hverju er komið fram við þau með hætti sem enginn fullorðinn myndi nokkru sinni sætta sig við?

Hugsið ykkur að í vinnu væru þið metin til launa með margskonar kvörðum. Það færi eftir vinnustað og deild hvernig þið væruð metin og þau um leið hvað þið fenguð borgað. Þannig að hver og einn vissi ekki alltaf hvaða mælikvarðar væru notaðir til að mæla vinnuframlag hans og mikið ósamræmi væri í launum starfsmanna, ekkert gegnsæi og ekkert jafnræði á milli starfsmanna. Þetta myndi fullorðið fólk ekki sætta sig við, ALDREI.

Nemendur fá endurgjöf – sín „laun“ – í litum, bókstöfum, tölum og textum. En hvaða merkingu hefur þetta? Það fer eftir kennara, skóla og túlkun. Nýlegar rannsóknir og reynsla sýna að nemendur, foreldrar og jafnvel kennarar skilja oft ekki hvaða viðmið liggja að baki matsins – eða hvernig það tengist lögbundinni námskrá.

Steininn tekur þó úr við lok grunnskóla þegar mat er lagt á 10 ára nám, hvernig hverjum og einum hefur tekist að tileinka sér lögbundin viðmið úr námskrá. Líklega þekkja allir, nemendur og foreldrar þeirra, síðustu ár þá óvissu og vanmáttartilfinningu sem fylgir útskriftareinkunnum grunnskólanna þar sem einkunnir er ráðgáta, samanburður við aðra ómögulegur og jafnræði ekkert.

Nemendur kalla á að virðing sé borin fyrir vinnu þeirra, að þeir viti til hvers er ætlast til af þeim, að endurgjöf á nám þeirra sé skiljanleg og að þeir njóti jafnræðis.

Innleiðum námsmat þar sem allir nemendur sitja við sama borð, vita til hvers er ætlast af þeim, skilja endurgjöfina og jafnræðis er gætt.

Er til of mikils mælst?

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×