Körfubolti

„Ætlum ekki að vera far­þegar í úrslitakeppinni“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Sigurður Ingimundarson náði að koma Keflavíkurliðinu í úrslitakeppni. 
Sigurður Ingimundarson náði að koma Keflavíkurliðinu í úrslitakeppni.  Vísir/Hulda Margrét

Sigurður Ingimundarson stýrði Keflavík inn í úrslitakeppni Bónus-deildar karla í körfubolta en liðið nældi sér í farseðil þangað með sigri gegn Þór Þorlákshöfn í leik liðanna í lokaumferð deildarinnar í Icelandic Glacial-höllinni í kvöld. 

„Þetta var ekki frábær frammistaða en við gerðum nóg til þess að vinna og koma okkur þangað sem við vildum, það er í úrslitakeppnina. Við vorum fínir á sóknarhelmingnum en hefðum klárlega getað spilað betri vörn,“ sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur, í sigurvímu að leik loknum. 

„Þegar ég tók við liðinu settum við okkur það markmið að bæta leik liðsins jafnt og þétt og koma liðinu í úrslitakeppni. Það er góð tilfinning að hafa náð að landa því markmiði. Nú tekur bara ný keppni við og við erum spenntir fyrir því,“ sagði Sigurður enn fremur en hann tók við Keflavíkurliðinu af Pétri Ingvarssyni í slæmri stöðu í byrjun febrúar fyrr á þessu ári. 

„Við ætlum að gera okkur gildandi í úrslitakeppninni og viljum alls ekki vera einhverjir farþegar þar þrátt fyrir að deildarkeppnin hafi verið sveiflukennd hjá okkur. Við erum með gott lið og getum hæglega gert góða hluti í úrslitakeppninni ef við spilum á okkar getu,“ sagði þessi þrautreyndi þjálfari.

„Úrslitakeppnin er önnur skepna. Leikirnir verða hægari og líkamlega baráttan meiri. Það er ekkert launungarmál að við þurfum að stíga upp í varnarleiknum þar og ég hef fulla trú á því að við gerum það,“ sagði hann en Keflavík mætir Tindastóli, nýkrýndum deildarmeisturum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×