Innlent

Bílar á víð og dreif hindruðu að­gengi slökkviliðsbíla

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Björgunarmiðstöðin Skógarhlíð 14 að næturlagi.
Björgunarmiðstöðin Skógarhlíð 14 að næturlagi. Vísir/Vilhelm

Bílar, sem var lagt á víð og dreif í nágrenni starfsstöðvar Slökkviliðsins í Skógarhlíð, hindruðu aðgengi slökkviliðsbíla fyrr í dag. Varðstjóri segir alvarlegt þegar bílum er lagt með þessum hætti. 

„Það var einhver samkoma einhvers staðar nálægt og fólk var að leggja ólöglega í götunni og við neyðaraksturslínurnar okkar í Skógarhlíð,“ segir Þórarinn Þórarinsson varðstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í samtali við fréttastofu.

Hann segir lögreglu hafa verið kallaða til, til að leysa úr málinu og gerir ráð fyrir að allt sé komið á réttan kjöl á ný. 

Aðspurður hvort ástandið hafi valdið töf á ferðum slökkviliðsins segir hann það hafa sloppið fyrir horn. 

„En það er alltaf mjög alvarlegur hlutur þegar bílum er lagt ólöglega því það hefur svo mikil áhrif á okkur. Sérstaklega þegar við erum á stóru bílunum, dælubílum og körfubílum. Þannig að við biðjum fólk um að hafa okkur í huga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×