Körfubolti

„Gerðum ekki ráð fyrir ein­hverri rosa­legri flug­elda­sýningu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurður Ingimundarson hefur í nægu að snúast þessa dagana enda þjálfar hann bæði karla- og kvennalið Keflavíkur. Tindastóll er andstæðingur beggja liðanna í úrslitakeppninni. 
Sigurður Ingimundarson hefur í nægu að snúast þessa dagana enda þjálfar hann bæði karla- og kvennalið Keflavíkur. Tindastóll er andstæðingur beggja liðanna í úrslitakeppninni.  vísir/diego

Sigurður Ingimundarson, hinn þrautreyndi þjálfari Keflavíkur, var ánægður með hvernig hans lið byrjaði leikinn gegn Tindastóli í kvöld.

Keflavík vann leik liðanna í Blue-höllinni, 92-63, og komst þar með í 1-0 í einvígi þeirra í átta liða úrslitum Bónus deildar kvenna. Keflvíkingar leiddu allan tímann.

„Þær spiluðu vel. Það var svaka kraftur í þeim í vörninni og sérstaklega í byrjun leiks. Þetta var skemmtilegt og leit ágætlega út hjá okkur í kvöld,“ sagði Sigurður í samtali við Vísi í leikslok.

Keflvíkingar pressuðu Stólana stíft í byrjun leiks og gerðu gestunum afar erfitt fyrir.

„Mér fannst þetta mjög flott hjá þeim, þær lögðu sig mikið fram og þá er margt hægt,“ sagði Sigurður.

Keflvíkingar voru allan tímann með örugga forystu í leiknum í kvöld en Sigurður ítrekaði að þeir hefðu þurft að spila vel til að halda Stólunum í hæfilegri fjarlægð.

„Við gerðum ekkert ráð fyrir að við myndum valta yfir þetta og þetta yrði eitthvað öruggt enda náðu þær að spila sig inn í leikinn og eru gott lið. Við gerðum ekki ráð fyrir einhverri rosalegri flugeldasýningu enda var það ekki markmiðið; bara að ná einum sigri,“ sagði Sigurður sem sá einhverja hluti sem Keflvíkingar geta gert betur en þeir gerðu í kvöld.

„Já, það var alls konar sem við vorum ekki að gera neitt sérstaklega. Það voru alltof margar sendingar sem fóru bara eitthvað,“ sagði Sigurður sem á von á strembnari leik þegar liðin mætast í annað sinn á Sauðárkróki á föstudaginn.

„Já, miklu erfiðari,“ sagði Sigurður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×