Innlent

Tók upp hníf eftir úti­stöður við mann á hóteli

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn var fluttur í fangageymslu lögreglu á Hverfisgötu.
Maðurinn var fluttur í fangageymslu lögreglu á Hverfisgötu. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út eftir að tilkynnt var um mann með hníf á hóteli í Reykjavík. Maðurinn hafði lent í útistöðum við annan mann þegar hann tók upp hníf og ógnaði með honum. Skömmu síðar var maðurinn handtekinn á vettvangi og fluttur í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu þar sem segir frá verkefnum lögreglu frá klukkan 17 í gær til fimm í morgun. Þar segir að nú í morgunsárið hafi fimm verið vistaðir í fangageymslu og að 69 verkefni hafi verið skráð í kerfum lögreglu á tímabilinu.

Þar segir ennfremur frá því að lögregla hafi verið kölluð til eftir að ekið hafði verið á mann á rafhlaupahjóli. Maðurinn var þó ekki slasaður eftir óhappið.

Þá var tilkynnt um ofurölvi mann á krá í Reykjavík. Fram kemur að maðurinn hafi í fyrstu neitað að yfirgefa staðinn eftir fyrirmæli lögreglu og hafi þurft að færa manninn út. Þar hafi hann neitað að gefa upp kennitölu en að endingu hafi lögregla reynt að aka viðkomandi heim. „Þegar þangað var komið neitaði einstaklingurinn þá að fara út úr lögreglubifreiðinni og endaði málið þannig að vista þurfti aðilann í fangaklefa þangað til að vímuástandið yrði skárra,“ segir í tilkynningunni.

Lögregla hafði sömuleiðis afskipti af nokkrum ökumönnum sem óku um á ökuréttinda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×