Andrea, sem spilar með Tamba Bay Sun í USL ofurdeildinni í Bandaríkjunum, sneri aftur í íslenska landsliðið eftir um fjögurra ára fjarveru í síðasta landsliðsverkefni og spilaði gegn Sviss og Frakklandi í fyrstu leikjum Íslands í Þjóðadeildinni þetta árið.
„Það var bara mikil gleði og stolt sem fylgdi því að vera komin aftur. Það var einhvern veginn erfitt að búast við einhverjum ákveðnum hlutum en maður er alltaf bara tilbúin ef kallið skildi koma. Mótlætið styrkir mann,“ segir Andrea en hún átti í góðum samskiptum við Þorstein landsliðsþjálfara í aðdraganda verkefnisins.
„Hann var í sambandi við mig þegar leið að þessum verkefnum og hefur verið að fylgjast með mér, það er gott að vita af því.“
Og tilfinningin sem fylgdi því að spila aftur fyrir land og þjóð var í betri kantinum.
„Ég var bara svo stolt yfir því að klæðast landsliðstreyjunni aftur og spila fyrir landsliðið. Stolt er eiginlega bara orðið sem lýsir því.“
Þetta er annað landsliðsverkefnið í röð sem Andrea Rán tekur þátt í, hún stefnir á sæti í EM hópi Íslands.
„Við gerum það allar. Það er mikil samkeppni, hún er af hinu góða.“
Markmiðið sé að sækja sigur gegn Noregi á föstudaginn.
„Við förum í alla leiki til að taka þrjú stig, við tökum þetta dag fyrir dag, leik fyrir leik og stefnum á þrjú stig.“
Íslenska landsliðið verður án fyrirliða síns og besta leikmanns í komandi leikjum, Glódís Perla Viggósdóttir er frá vegna meiðsla og hennar er sárt saknað.
„Að sjálfsögðu söknum við hennar mikið. Hún er sterkur leiðtogi liðsins og hefur alltaf verið hérna en það kemur bara maður í manns stað og við ætlum að spila fyrir hana, gera hana stolta.“