Innlent

Tólf mánaða fangelsi fyrir að bera sig og á­reita börn

Lovísa Arnardóttir skrifar
Maðurinn gekk upp að 14 ára stúlku í verslun 10-11 og greip um kynfærasvæði hennar.
Maðurinn gekk upp að 14 ára stúlku í verslun 10-11 og greip um kynfærasvæði hennar. Vísir/Vilhelm

Karlmaður var sakfelldur í Landsrétti í dag fyrir að hafa áreitt stúlku í verslun 10-11 í miðbænum og fyrir að bera kynfæri sín í tvígang, annars vegar á Háskólatorgi og hins vegar í Mini market. Maðurinn var dæmdur til tólf mánaða fangelsis og til að greiða börnunum miskabætur. Maðurinn er 34 ára gamall og á að baki dóma fyrir svipuð brot samkvæmt dómi.

Í dómi Landsréttar kemur fram að maðurinn hafi áreitt eitt barnið í janúar 2021 með því að segja henni að hún væri falleg, tekið í og kysst hönd hennar, kysst hana á munninn auk þess sem hann snerti og nuddaði kynfærasvæði stúlkunnar. Þá spurði hann hana einnig hvort þau ættu „að gera „þetta“ á eftir“ en stúlkan var á þeim tíma aðeins 13 ára gömul. Ekki kemur annað fram en að atvikið hafi átt sér stað í anddyri.

Þá kemur einnig fram að maðurinn áreitti annað barn í verslun 10-11 í Austurstræti í Reykjavík. Þar greip hann um kynfærasvæði stúlkunnar sem var 14 ára á þeim tíma. Fram kemur í dómi að fyrir liggi myndbandsupptaka þar sem megi sjá manninn litast um í versluninni og þegar aðrir viðskiptavinir hafi verið farnir framhjá hafi hann gengið hröðum skrefum að stúlkunni, beygt sig niður og sett höndina á kynfærasvæði hennar. Stúlkan hljóp frá honum og var mjög brugðið. Hún leitaði strax til starfsmanns verslunarinnar sem kallaði á lögregluna.

Hvað varðar þau atvik þar sem maðurinn beraði átti fyrra atvikið sér stað í mars árið 2023 innan Háskólatorgs. Maðurinn gekk þá að glugga og bæði beraði og handlék kynfæri sín. Í október sama ár gekk maðurinn upp að viðskiptavini í versluninni Mini Market, spurði hvað klukkan væri og beraði svo kynfæri sín í beinu framhaldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×