Forráðamenn Wolfsburg leituðu ekki langt yfir skammt og réðu Sabrinu Eckhoff, sem var aðstoðarþjálfari liðsins, til að stýra liðinu til bráðabirgða.
Eckhoff er fertug og hefur verið í þjálfarateymi Wolfsburg síðan í júlí 2021. Hún mun njóta aðstoðar sama teymis og verið hefur undir stjórn Stroot.
Það verður svo að koma í ljós hvort að Eckhoff veitir Sveindísi fleiri tækifæri í byrjunarliði en Stroot gerði áður en hann hætti, þegar Wolfsburg hafði misst frá sér öll tækifæri á titli.
Sveindís hefur aðeins verið þrisvar í byrjunarliði í þýsku deildinni í vetur en þrettán sinnum komið inn á sem varamaður. Hún hefur byrjað fimm leiki í Meistaradeildinni en fjórum sinnum komið inn á sem varamaður.
Næst á dagskrá hjá Sveindísi eru hins vegar landsleikirnir við Noreg og Sviss. Ísland mætir Noregi í dag klukkan 16:45 á Þróttarvelli og svo Sviss næsta þriðjudag, á sama tíma og sama stað.