Körfubolti

„Ef maður er í búning er ekkert að manni“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson svaraði spurningum Stefáns Árna Pálssonar, Ómars Arnar Sævarssonar og Sævars Sævarssonar eftir leik Stjörnunnar og ÍR.
Ægir Þór Steinarsson svaraði spurningum Stefáns Árna Pálssonar, Ómars Arnar Sævarssonar og Sævars Sævarssonar eftir leik Stjörnunnar og ÍR. stöð 2 sport

Leikstjórnandinn Ægir Þór Steinarsson var að vonum sáttur eftir sigur Stjörnunnar á ÍR, 101-83, í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Bónus deildar karla í gær.

Ægir lék vel gegn ÍR-ingum og var valinn maður leiksins í boði Just Wingin' It. Hann mætti í settið til þeirra Stefáns Árna Pálssonar, Ómars Arnar Sævarssonar og Sævars Sævarsson í leikslok.

„Ég er fyrst og fremst sáttur með heildarframmistöðuna; að verja heimavöllinn. Við erum búnir að vinna í því allt árið að fá heimavöll og það er sterkt að byrja á sigri,“ sagði Ægir.

Hann viðurkennir að Stjörnumenn hafi komið dálítið haltrandi inn í úrslitakeppnina eftir misjafnt gengi að undanförnu.

„Við vorum mjög spenntir að fara að byrja þetta. Við erum búnir að vera mjög flatir í lokin á tímabilinu og bara spenntir að fá fullt hús og úrslitakeppnisstemmningu. Við náðum bara að svara. Mér fannst við setja saman svona góða frammistöðu sem ég er fyrst og fremst ánægður með,“ sagði Ægir.

Klippa: Ægir maður leiksins

Hann skoraði 24 stig, tók átta fráköst og gaf átta stoðsendingar í leiknum. Ægir hefur glímt við meiðsli að undanförnu en var svo sannarlega klár í leikinn í gær.

„Ég er bara góður. Ef maður er í búning er ekkert að manni; þá er maður ekki meiddur. Ef maður er meiddur er maður ekki í búningi. Mér leið bara vel inni á vellinum og fannst frammistaðan hjá liðinu nokkuð góð,“ sagði Ægir en viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Stjarnan og ÍR mætast öðru sinni á mánudagskvöldið klukkan 19:00. Leikurinn verður sýndur beint á rás Bónus deildarinnar 2.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×