Körfubolti

„Það erfiðasta er enn­þá eftir“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Þorleifur Ólafsson er með báða fætur á jörðinni þrátt fyrir að vera kominn 2-0 yfir.
Þorleifur Ólafsson er með báða fætur á jörðinni þrátt fyrir að vera kominn 2-0 yfir. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindaavíkur, segir vandasamasta verkið vera eftir en liðið er komið 2-0 yfir í rimmu sinni við deildarmeistara Hauka í átta liða úrslitum Bónus-deildar kvenna í körfubolta. Grindavík vann sannfærandi 14 stiga sigur þegar liðin leiddu saman hesta sína í öðrum leik sínum í Smáranum í kvöld.  

„Við spiluðum vel í þessum leik og það var frábær liðsheild sem skilaði þessum sigri. Við vorum sterkari í baráttunni um fráköst og Isabella Ósk var öflug á báðum endum vallarins. Við vorum smá tíma að átta okkur á svæðisvörninni sem þær spiluðu en þegar við gerðum það náðum við að búa til opin og góð færi,“ sagði Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, kátur að leik loknum.

„Ég tek það á mig að hafa ekki farið nógu vel yfir svæðisvörnina sem ég var nokkurn veginn viss um að þær myndu spila. Þær náðu svo að að loka á Isabellu Ósk á kafla og þá áttum við í erfiðleikum með að skora. Í smá tíma fórum við að verja forskotið sem kann aldrei góðri lukku að stýra. Við fundum hins vegar lausnir og það er jákvætt,“ sagði Þorleifur enn fremur.

„Þó svo að við séum komnar í 2-0 þá megum við ekki fara fram úr okkur. Það erfiðast er eftir, það er að loka seríunni með þriðja sigrinum. Leikmenn voru eðilega mjög glaðar eftir þennan sigur en ég lét þær vita að við værum ekki búnar að landa neinu og yrðum að spila enn betur í leiknum á Ásvöllum á þriðjudaginn kemur,“ sagði hann um framhaldið.

„Það er ýmislegt sem við þurfum að laga þrátt fyrir þennan góða sigur. Við þurfum að fínpússa nokkur atriði þegar kemur að sóknarleiknum. Liðsvörnin var heilt yfir mjög góð í þessum leik og við þurfum að ná henni upp enn sterkari og út allan leikinn ef við ætlum að klára dæmið í næsta leik,“ sagði Þorleifur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×