Erlent

Hand­tekinn fyrir að fara á for­boðna eyju

Lovísa Arnardóttir skrifar
Polyakov var handtekinn tveimur dögum eftir að hann fór á strönd eyjunnar.
Polyakov var handtekinn tveimur dögum eftir að hann fór á strönd eyjunnar. Youtube og vísir/Getty

Mykhailo Viktorovych Polyakov, bandarískur ferðamaður, var í vikunni handtekinn fyrir að fara upp á strönd eyjunnar North Sentinel í Indlandshafi. Það gerði hann til að hitta Sentinelese-ættbálkinn sem hefur búið þar um þúsundir ára án samskipta við annað fólk. Talið er að ættbálkurinn telji um 150 manns.

Í frétt Guardian um málið kemur fram að indverska lögreglan hafi handtekið manninn. Hann hafi laumað sér á eyjuna með kókoshnetu og Diet Coke í dós. 

Maðurinn er nú í haldi indversku lögreglunnar í þrjá daga svo hægt sé að yfirheyra hann. Samkvæmt upplýsingum frá indversku lögreglunni blés Polyakov í flautu í um klukkustund nærri strönd eyjunnar til að reyna að vekja athygli fólksins á eyjunni.

„Hann lenti á eyjunni í um fimm mínútur, skildi eftir fórnargjafir sínar, tók sandsýni og tók myndband áður en hann sneri aftur í bátinn sinn,“ er haft eftir HGS Dhaliwal lögreglustjóra á Andaman og Nicobar-eyjunum.

Engum heimilt að heimsækja eyjuna

Engum, hvorki Indverjum né útlendingum, er heimilt að fara í allt að fimm kílómetra fjarlægð við eyjuna. Það er til að vernda fólk sem býr á eyjunni við hvers kyns sjúkdómum og til að vernda lifnaðarhætti þeirra.

Polyakov var handtekinn á mánudag, tveimur dögum eftir að hann fór á land. Hann hefur tvisvar á síðustu mánuðum heimsótt svæðið. Í október fannst hann á uppblásnum kajak en var stöðvaður af starfsfólki hótels. Í janúar reyndi hann svo aftur að fara á land en náði því ekki. Á mánudag notaði hann aftur uppblásinn bát til að ferðast um 35 kílómetra frá aðaleyjaklasanum og að North Sentinel.

Sentinelese-ættbálkurinn komst síðast í fréttir árið 2018 þegar þau drápu bandaríska sendiboðann John Allen Chau. Lík hans fannst aldrei og fór aldrei fram rannsókn á andláti hans vegna laganna sem eru í gildi um eyjuna. Lítið er vitað um menningu og tungumál ættbálksins en hann er þekktur fyrir fjandskap í garð þeirra sem reyna að komast nálægt þeim.

Fyrir um tveimur áratugum birti indverska landhelgisgæslan mynd af karlmanni á eyjunni sem miðaði boga sínum að þyrlu sem flaug yfir eyjuna.

Indversk yfirvöld hafa saksótt alla heimamenn sem hafa aðstoðað ferðamenn við að komast á eyjuna. Samkvæmt frétt Guardian vinnur lögreglan að því að bera kennsl á þau sem mögulega aðstoðuðu Polyakov.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×