Fótbolti

Stefán Ingi allt í öllu í sigri Sandefjord

Smári Jökull Jónsson skrifar
Stefán Ingi skoraði tvö fyrir Sandefjord í dag.
Stefán Ingi skoraði tvö fyrir Sandefjord í dag. Facebooksíða Sandefjord

Stefán Ingi Sigurðarson átti góðan leik fyrir Sandefjord sem vann góðan heimasigur í norsku deildinni í dag. Þá lék Logi Tómasson með Strömgodeset sem vann stórsigur.

Stefán Ingi Sigurðarson var heldur betur á skotskónum hjá Sandefjord í dag. Stefán Ingi lagði upp mark í fysta leik tímabilsins um síðustu helgi en í dag bætti hann um betur og skoraði tvö mörk í 3-0 sigri liðsisn gegn Molde.

Stefán Ingi skoraði fyrsta markið á 23. mínútu og skömmu fyrir hálfleik bætti hann öðru marki við og sá til þess að Sandefjord væri 2-0 yfir í hálfleik. Hann var síðan tekinn af velli þegar stundarfjórðungur var eftir og heimamenn bættu einu marki við undir lokin og unnu 3-0 sigur.

Logi Tómasson var í byrjunarliði Strömsgodset sem vann 5-0 útisigur gegn fyrrum lærisveinum Óskars Hrafns Þorvaldssonar í Haugesund. Logi var tekinn af velli á 56. mínútu í stöðunni 2-0 en hann hafði fengið gult spjald í fyrri hálfleik.

Þá kom Sveinn Aron Guðjohnsen inn af bekknum í uppbótartíma í liði Sarpsborg sem gerði 1-1 jafntefli gegn Vålerenga á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×