Sögulega miklar sveiflur hafa einkennt fjármálamarkaði beggja vegna Atlantsála undanfarna daga eftir að Donald Trump boðaði svimandi háa tolla gagnvart öllum helstu viðskiptaþjóðum Bandaríkjanna um miðja síðustu viku. Allar helstu hlutabréfavísitölur heimsins voru framan af í nánast frjálsu falli, meðal annars hér á Íslandi, og í vikunni fór sömuleiðis ávöxtunarkrafa tíu ára bandarískra ríkisskuldabréfa að hækka skarpt – sem jók enn frekar á ugg og ótta fjárfesta.
Vegna þess mikla óróa sem var að skapast á alþjóðlegum fjármálamörkuðum neyddist Trump til að draga í land – í bili – að hluta með tollahækkanir sínar. Síðla dags í gær tilkynnti hann skyndilega þriggja mánaða frestun á nýjum tollum umfram tíu prósent gagnvart fjölda stærri ríkja en samhliða því hækkaði hann hins vegar enn frekar tollana á Kína í samtals 125 prósent. Ráðamenn í Peking hafa svarað í sömu mynt.
Hlutabréfamarkaðir vestanhafs tóku strax í kjölfarið mikið stökk upp á við og vísitölurnar Nasdaq og S&P 500, svo dæmi sé tekið, hækkuðu um liðlega tíu til tólf prósent. Markaðir í Evrópu og Asíu tóku sömuleiðis við sér í dag og sömuleiðis sá íslenski. Úrvalsvísitalan var upp um meira en fimm prósent framan af degi en talsvert dró úr verðhækkunum flestra félaga og hækkunin við lok markaða nam um 2,5 prósent.
Óvissan er því enn mikil á mörkuðum um þau áhrif sem tollastríð Bandaríkjanna kann að hafa fyrir heimshagkerfið og jafnframt fyrirkomulag frjálsra viðskipta til lengri tíma. Hlutabréfamarkaðir vestanhafs tóku því að nýju nokkra dýfu við opnun í dag og eru vísitölurnar þar niður um meira en þrjú prósent.
„Það er algengt að vísa til þess á tímum sem þessum að það sé mikil óvissa um þessar mundir, og meiri en vanalega, og að sú óvissa skýri þessar miklu lækkanir sem við höfum séð á hlutabréfamörkuðum heimsins að undanförnu,“ segir Hannes Árdal, framkvæmdastjóri Acro, í samtali við Innherja þegar hann er beðin um að meta stöðuna og af hverju markaðir hér heima séu jafnvel að lækka meira en annars staðar.
Jafnvel þó við gerum ráð fyrir umtalsverðum áhrifum sem kynnu að koma upp að þá er búið að verðleggja ansi mikið í núverandi verð félaga á markaði.
Hann tekur undir við að það sé ekki hægt að mótmæla því að óvissan í heimshagkerfinu núna sé afar mikil, til dæmis um fyrirkomulag frjálsra alþjóðaviðskipta, fjárfestar séu því að bregðast við með því að skala niður hlutabréfastöður sínar. „Það er erfiðara við þær aðstæður en áður að leggja mat á undirliggjandi rekstur og framtíðarhorfur sumra, og jafnvel margra, félaga,“ útskýrir Hannes, en bætir við:
„Það er hins vegar eðli óvissu, og fjármagnsmarkaða í heild sinni, að við vitum ekki fyrr en eftir á hvort að hreyfingarnar eru eðlilegar eða ekki. Ef horft er til fyrri atburða þá hefur oft sýnt sig að kaup í markaði eins og hann er núna geta verið hagfelld til lengri tíma, þrátt fyrir flökt markaða verði áfram töluvert,“ segir Hannes, og vísar þar meðal annars til heimsfaraldursins árið 2020, innrás Rússa í Úkraínu, hryðjuverkaárásarinnar á Tvíburaturnanna og þegar netbólan sprakk um síðustu aldamót.
Þá bendir framkvæmdastjóri verðbréfafyrirtækisins á að ef horft er til afkomu fyrirtækja í Kauphöllinni hér heima, með hliðsjón af verðkennitölum, þá séu þær hagfelldar.
„Ágætur tími að bæta í stöður“ og fella niður þóknanir
„Jafnvel þó við gerum ráð fyrir umtalsverðum áhrifum sem kynnu að koma upp að þá er búið að verðleggja ansi mikið í núverandi verð félaga á markaði. Sagan hefur sýnt að hreyfingarnar geta verið mjög ýktar og í mörgum tilfellum óeðlilegar. Til lengri tíma snýst þetta allt um afkomu fyrirtækjanna og verðhreyfingar eins og þessar munu leiðréttast á einhverjum tímapunkti,“ að sögn Hannesar.
Við höfum séð veltuna á sumum viðskiptadögum undanfarið vera fremur litla í samhengi við fjölda viðskipta, sem kann að segja okkur að litlir fjárfestar séu að flýja óvissuna. Er það ykkar tilfinning?
„Það eðlilegt að fjárfestar, hvort sem þeir eru litlir eða stórir á markaði, endurskoði afstöðu sína til fjárfestinga þegar óvissan eykst svona. Við hjá Acro höfum ekki orðið vör við það sérstaklega að minni eða almennir fjárfestar séu að selja frekar en aðrir. Við sjáum ágætlega hegðun minni fjárfesta á markaði í gegnum notkun viðskiptavina okkar á Acro-appinu. Þar verður við ekki varir við annað en að viðskiptavinir okkar séu frekar á þeirri línu sem ég var að lýsa – með öðrum orðum að þetta sé ágætur tími til að bæta við stöður sínar á markaði.“
Við reiknum með að Seðlabankinn muni lækka vexti á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum í maímánuði en það er of snemmt að tala um það núna að líkur á meiri lækkunum en ella hafi aukist
Hann nefnir í framhaldinu að Acro hafi jafnframt opnað nýlega á aðgang lögaðila í gegnum Acro-appið og félagið eigi ekki von á öðru en að þróunin verði sú hin sama þegar kemur að þess konar fjárfestum. „Í tilefni af því að við opnuðum á lögaðilana ætlum við að bjóða viðskiptavinum okkar að eiga viðskipti í Acro-appinu án þóknana út apríl,“ segir Hannes, og bætir við „ef sagan svíkur okkur ekki, þá er þetta góður tími fyrir viðskiptavini okkar til að nýta appið til að fjárfesta.“
Ótti við samdrátt í Bandaríkjunum, jafnvel í heimshagkerfinu, hefur meðal annars þýtt ört lækkandi heimsmarkaðsverð á olíu og þá er útlit fyrir meiri slaka í ferðaþjónustu á Íslandi á þessu ári en áður var gert ráð fyrir. Munu þessar breyttu efnahagshorfur ekki kalla á meiri og hraðari vaxtalækkanir Seðlabankans, sem gæti þá hjálpað til við að róa markaðinn?
„Jú, það verður að teljast líklegt að þetta hafi neikvæð áhrif á efnahagshorfur en ólíkt hefðbundnum samdrætti þá er fylgikvillinn væntanlega aukin verðbólga sem kemur fram í hærra vöruverði, að minnsta kosti fyrsta kastið á meðan fyrirtækin leiðrétta sig fyrir tollunum. Þessi óvissa hefur síðan talsverð áhrif á ákvarðanatöku heimila, til dæmis varðandi íbúðarkaup, sem getur kælt þann hluta af mældri verðbólgu,“ að sögn Hannesar.
Hann bætir hins vegar við að þegar fram líða stundir þá kunni þetta ástand að leiða til þess að Seðlabankinn þurfi að lækka vexti meira en reiknað var með sökum samdráttar í hagkerfinu, eins og bankinn og fulltrúar í peningastefnunefnd hafa sem komið inn á áður. „Við reiknum með að Seðlabankinn muni lækka vexti á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum í maímánuði en það er of snemmt að tala um það núna að líkur á meiri lækkunum en ella hafi aukist.“
Meginvextir Seðlabankans standa núna í 7,75 prósent en tólf mánaða verðbólga mælist 3,8 prósent.
Þá nefnir Hannes sömuleiðis að það gætu verið að myndast kjöraðstæður til að lækka vexti ef verðbólguvæntingar verða hóflegar, en sé litið til þróunar verðbólguálags á skuldabréfamarkaði til skamms tíma hafa þær lækkaði nokkuð að undanförnu. „Þessir lægri vextir munu vissulega hjálpa til hér heima þó ég telji reyndar sjálfur að við munum fyrst um sinn frekar fylgja verðþróun erlendis.“
Sagan er okkur hliðholl við svona aðstæður á mörkuðum
Með hliðsjón af miklum verðlækkunum félaga að undanförnu, sum þeirra hafa lækkað um eða yfir þriðjung frá áramótum, er þá að skapast tækifæri fyrir minni fjárfesta að koma inn á markaðinn þrátt fyrir að óvissan sé óumdeilanlega enn alltumlykjandi?
„Framtíðin er auðvitað óviss, en það sem við getum skoðað er sagan og hvernig verðþróun hefur verið á mörkuðum í kjölfar svona ástands þar sem flökt er mjög hátt samhliða miklum lækkunum. Og í sannleika sagt er sú saga okkur mjög hliðholl,“ undirstrikar Hannes.
Hann tekur þar meðal annars dæmi af þróun S&P 500 vísitölunnar í Bandaríkjunum frá byrjun ársins 1990 til dagsins í dag og VIX vísitölunnar á sama tímabili, sem mælir flöktið á markaði þar, og borið saman ávöxtun S&P 500 í kjölfar hárra gilda á VIX vísitölunni við ávöxtun hennar almennt á tímabilinu.
Það sem við getum skoðað er sagan og hvernig verðþróun hefur verið á mörkuðum í kjölfar svona ástands þar sem flökt er mjög hátt samhliða miklum lækkunum. Og í sannleika sagt er sú saga okkur mjög hliðholl.
„En staðan er þannig að í kjölfar þess ástands eins og við erum að sjá núna hefur S&P vísitalan skilað til tólf mánaða um það bil 39 prósenta ávöxtun að meðaltali, sem er 28 prósentustigum hærra en meðaltalið upp á tólf prósent á öðrum tímabilum. Horft til þriggja ára eru sömu tölur 63 prósent og þá 31 prósentustigum yfir meðaltalinu upp á 32 prósent á öðrum tímabilum,“ útskýrir Hannes.
Hann tekur samt fram að ástæða sé til þess að rifja þá klassísku setningu að ávöxtun í fortíð sé ekki ávísun á ávöxtun í framtíð og ekki megi líta á þetta fjárfestingaráðgjöf, en tölurnar tali hins vegar sínu máli. „Þetta bendir samt mjög sterkt til þess að, fyrir þá sem hafa á annað borð áhuga á að fjárfesta í hlutabréfum, þá sé þetta góður tími til að fjárfesta til langs og milli langs tíma.“