Körfubolti

Falko: Zarko og Matej voru frá­bærir

Árni Jóhannsson skrifar
Jakob Falko hefur oft skorað meira en hann skoraði 17 stig og sendi níu stoðsendingar
Jakob Falko hefur oft skorað meira en hann skoraði 17 stig og sendi níu stoðsendingar Vísir/Pawel

Jakob Falko fór fyrir liði sínu, ÍR í kvöld en Stjarnan gerði vel í að koma honum í vandræði og hefur hann oft skorað meira. ÍR vann leikinn 87-89 og hafði Jakob í nægu að snúast að koma boltanum upp völlinn undir stanslausri pressuvörn Stjörnunnar.

Hann var spurður að því fyrst og fremst hvort þessi sigur hefði mikið frekar snúist um andlegan styrk en hæfileika í körfubolta. Jakob gat verið sammála því.

„Já algjörlega. Körfubolti er leikur áhlaupa og við vorum komnir í 18 stiga forskot og allt í einu var munurinn ekki nema tvö stig. Við vorum mjög skarpir andlega, gengum frá þessu og erum á leiðinni heim.“

Stjörnumenn gerðu vel í að koma í veg fyrir að Jakob kæmist að hringnum og í stöður sem honum líkar vel við. Hann gerði þó vel í að finna liðsfélaga sína sem sölluðu niður stigunum framan af. Hversu ánægður var hann með liðsfélagana?

„Zarko Jukic og Matej Kavas voru frábærir svona þegar ég hugsa fljótt um þennan leik. Ég er örmagna og það er frábært að þeir hafi stigið upp og gert svona vel. Ég verð að taka hatt minn ofan fyrir þeim.“

ÍR-ingar eru á leiðinni heim þar sem þeir fá iðulega mikinn stuðning. Þeir fengu góðan stuðning í Garðabænum í kvöld en hvernig líður Jakob með að koma einvíginu aftur heim?

„Mjög vel. Mér fannst að við hefðum átt að vinna leikinn heima um daginn en við töpuðum. Við vinnum næsta og komum síðan aftur hingað til að klára dæmið.“

En hvernig ætla þeir að fara að því að vinna?

„Eins og þú sagðir þá snýst þetta um andlegan styrk. Við þurfum alltaf að berjast eins vel og við getum. Vera einbeittir og skarpir og þá náum við í sigurinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×