Innlent

Lausn mennta­mála­ráð­herra sé vald­níðsla

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Hlín Jóhannesdóttir, rektor Kvikmyndaskóla Íslands, segir að lausn Guðmundar Inga Kristinssonar, mennta- og barnamálaráðherra, sé valdnísðla.
Hlín Jóhannesdóttir, rektor Kvikmyndaskóla Íslands, segir að lausn Guðmundar Inga Kristinssonar, mennta- og barnamálaráðherra, sé valdnísðla. Samsett/Vilhelm

Rektor, starfsfólk og kennarar Kvikmyndaskóla Íslands er ekki ánægt með tillögu mennta- og barnamálráðherra um að nemendur við skólann gætu lokið námi sínu við Tækniskólann. Rekstrarfélag Kvikmyndaskólans er farið í gjaldþrotameðferð.

Í tilkynningu frá mennta- og barnamálaráðuneytinu segir að Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, hafi leitað eftir því hjá stjórnendum Tækniskólans að skólinn myndi taka við nemendum Kvikmyndaskólans svo þeir gætu lokið námi sínu. Þá ætti einnig að vinna að nýrri námsbraut í kvikmyndagerð innan skólans.

„Þessi svokallaða lausn barna- og menntamálaráðuneytisins er engin lausn, heldur að okkar mati hrein valdníðsla. Það er erfitt að sjá hvað liggur að baki eða hvert markmið ráðuneytisins er,“ skrifar Hlín Jóhannesdóttir, rektor Kvikmyndaskólans, í yfirlýsingu fá kennurum og starfsfólki skólans.

Kennarar og starfsfólk hafa lagt mikið á sig til að halda skólanum gangandi, til að mynda greiða sjálf fyrir rafmagnsreikning skólans og vinna launalaust í tvo mánuði. Það er vilji þeirra að skólinn falli undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið í stað mennta- og barnamálaráðuneytið líkt og hann gerir nú.

„Við erum komin að þolmörkum. Það verður að höggva á þennan hnút og boltinn er hjá Guðmundi Inga,“ sagði Rúnar Guðbrandsson, fagstjóri leiklistardeildar Kvikmyndaskóla Íslands.

„Það er flestum ljóst að eftir undanfarnar vikur að við, kennarar og starfsfólk Kvikmyndaskóla Íslands erum tilbúin til að leggja mikið á okkur til að verja hag okkar nemenda og um leið verja þá miklu fagmennsku og 30 ára reynslu sem Kvikmyndaskóli Íslands býr yfir. Það er samdóma mat okkar að sú leið sem barna- og menningarmálaráðuneytið hefur nú kynnt, sé ekki bara illa ígrunduð, heldur endurspegli mikið þekkingarleysi á námi í kvikmyndagerð og beri hag nemenda okkar á engan hátt fyrir brjósti,“ skrifar Hlín í yfirlýsingunni.

Kvikmyndaskóli Íslands bauð fyrst upp á nám árið 1992 en greint var frá í lok mars 2025 að rekstrarfélag skólans væri farið í gjaldþrotameðferð. 

„Skólinn hefur haft á að skipa mörgu af okkar hæfasta kvikmyndagerðarfólki í hópi kennara og stundakennara. Tengingin við íslenskan kvikmyndaiðnað er sterk og það hefur sýnt sig að þörfin fyrir útskrifaða nemendur með þá fagþekkingu sem skólinn veltir er mikill, svo þess að hægt sé að manna íslensk og erlend verkefni,“ stendur í yfirlýsingunni.

„Það er okkar einlæga vona að ekki verið farið í þá vegferð sem barna- og menningarmálaráðuneytið hefur boðað í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×