Innlent

Tæp­lega þrjá­tíu ung­menni á leið í sam­kvæmi þegar slysið varð

Samúel Karl Ólason skrifar
Ungmennin voru í leið í samkvæmi á Hofsósi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Ungmennin voru í leið í samkvæmi á Hofsósi. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Vilhelm

Tæplega þrjátíu ungmenni voru á leið í samkvæmi á Hofsósi í gærkvöldi, þegar einn bíll endaði utanvegar. Fjórir voru í bílnum og voru allir fluttir til aðhlynningar í Reykjavík. Þar af þrír með flugvélum og einn með þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Ungmennin voru á leið norður í átt að Hofsósi þegar slysið varð, suður af bænum. Í tilkynningu frá lögreglu segir að þeim hafi í kjölfarið verið fylgt í húsnæði Björgunarsveitarinnar Grettis á Hofsósi, þar sem hlúð var að þeim og þau fengu áfallahjálp.

Veginum var lokað vegna slyssins en um tíma var opnuð hjáleið svo foreldrar og aðstandendur ungmennanna gætu sótt þau. Vegurinn var opnaður fyrir umferð upp úr klukkan eitt í nótt en vinna stendur áfram yfir á vettvangi.

Í tilkynningu lögreglunnar segir að frekari upplýsingar um ástand hinna slösuðu liggi ekki fyrir.


Tengdar fréttir

Fjórir slasaðir eftir alvarlegt slys

Fjórir slösuðust í alvarlegu umferðarslysi á Siglufjarðarvegi í gærkvöldi. Bíll lenti utanvegar við Grafará, suður af Hofsós, en allir sem voru í bílnum voru fluttir til Reykjavíkur til aðhlynningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×