Körfubolti

Dani komin alla leið í úrslitaeinvígið um titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danielle Rodriguez í leik með íslenska kvennalandsliðinu á Ásvöllum í undankeppni EM.
Danielle Rodriguez í leik með íslenska kvennalandsliðinu á Ásvöllum í undankeppni EM. Vísir/Anton Brink

Íslenska landsliðskonan Danielle Rodriguez og félagar hennar í Fribourg Basket eru komnar alla leið í úrslitaeinvígið um svissneska meistaratitilinn í kvennakörfunni.

Fribourg komst í úrslitaeinvígið eftir tvo sigra á móti Geneve í undanúrslitunum. Í seinni leiknum átti Danielle sannkallaðan stórleik en hún var með 25 stig, 6 stoðsendingar og 4 stolna bolta.

Danielle átti því mikinn þátt í þessum fimmtán stiga sigri á útivelli en hún var næst stigahæst og stoðsendingahæst í sínu liði.

Stigahæsti leikmaður liðsins ber næstum því sama eftirnafn og okkar kona. Það munar bara einum stað. Ana Rodrigues, sem er frá Portúgal, skoraði 28 stig og tók 10 fráköst fyrir Fribourg í leiknum.

Fribourg sló Pully einnig 2-0 út úr átta liða úrslitunum og hefur því unnið fjóra fyrstu leiki sína í úrslitaeinvíginu.

Í lokaúrslitunum mætir liðið deildarmeisturum Nyon sem unnu sitt einvígi líka örugglega.

Danielle er á sínu fyrsta tímabili í Sviss eftir að hafa spilað undanfarin ár með Grindavíkurliðinu en þar áður með KR og Stjörnunni.

Danielle er með 16,7 stig og 4,9 stoðsendingar að meðaltali í svissnesku deildinni en hún hitti úr 46 prósent þriggja stiga skotanna og 89 prósent vítanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×