Leik lokið: ÍR - Stjarnan 74-80 | Garðbæingar í undan­úr­slit

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Úr einvígi liðanna.
Úr einvígi liðanna. Vísir/Diego

Stjarnan er komin í undanúrslit eftir 74-80 sigur á útivelli í fjórða leik gegn ÍR. Stjarnan var með fína forystu allan leikinn en missti hana niður í fjórða leikhluta, aðeins eitt stig þegar ein mínúta var eftir. Nær komst ÍR hins vegar ekki og liðið er á leið í sumarfrí. 

Stjörnumenn vissu að þeir þyrftu að mæta með meiri orku en áður hefur sést í einvíginu, ÍR á heimavelli í útsláttarleik er skrímsli sem öll lið deildarinnar hræðast.

Sem þeir gerðu, Stjörnumenn mættu algjörlega trylltir til leiks og um leið og þeir virtust vera að láta örlítið undan bað Baldur þjálfari um leikhlé. ÍR hafði þá náð að blokka skot og stela boltanum til að taka eins stigs forystu, Baldur gjörsamlega brjálaðist og það gerðist ekki aftur í fyrri hálfleik, sem endaði 36-48 fyrir Stjörnunni.

Leikurinn var líka ofboðslega vel lagður upp hjá Stjörnumönnum. Þeir pökkuðu í grimma vörn og harðneituðu að hleypa ÍR að hringnum, sem leiddi til auðveldra stiga á hinum endanum. Staðan 54-64 eftir þriðja leikhluta og Stjarnan á góðri siglingu.

En í upphafi fjórða leikhluta safnaði ÍR öllum sínum kröftum, gjörsamlega öllu sem þeir áttu. Þeir minnkuðu muninn snöggt niður í þrjú stig, settu Stjörnumenn í vandræði og náðu leiknum niður í aðeins eitt stig, 74-75, þegar ein mínúta var eftir.

Atvik leiksins

Átti sér stað þegar Jacob Falko keyrði á körfuna og hefði minnkað muninn aftur í eitt stig fyrir ÍR með hálfa mínútu eftir, en það var brotið á honum. Dómararnir dæmdu hins vegar ekki villuna, sem öllum öðrum virtist augljós.

Stjarnan brunaði í sókn, breikkaði bilið aftur og gerði út af við vonir ÍR. Lokatölur 74-80.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira