Körfubolti

Klósett­pappír út um allt á vellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason með bikarinn sem Bilbao Basket vann en til hliðar má sjá klósettpappírinn út um allt á vellinum.
Tryggvi Snær Hlinason með bikarinn sem Bilbao Basket vann en til hliðar má sjá klósettpappírinn út um allt á vellinum. fibaeuropecup

Tryggvi Snær Hlinason og félagar í spænska liðinu Bilbao Basket tryggðu sér á miðvikudagskvöldið fyrsta Evróputitil félagsins við mjög krefjandi aðstæður í Grikklandi.

Bilbao tapaði seinni leiknum á móti gríska liðinu PAOK, 82-84, í úrslitaleik FIBA Europe bikarsins en vann einvígið samanlagt 154-149 þökk sé sjö stiga heimasigri í fyrri leiknum.

PAOK spilar heimaleiki sína í PAOK Sports Arena sem er átta þúsund manna höll í Þessaloníku.

Það er óhætt að segja að aðstæðurnar hafi verið erfiðar enda fékk gríska liðið frábæran stuðning í leiknum. Stuðningsmenn PAOK gáfu tóninn strax í upphafi leiksins með því að henda klósettpappír inn á völlinn eftir uppkastið.

Fyrir vikið var klósettpappír út um allt á vellinum og því þurfti að gera hlé á leiknum eftir aðeins nokkrar sekúndur til að hreinsa völlinn.

Tryggvi var að koma til baka eftir meiðsli og byrjaði því á bekknum. Hann var því ekki inn á gólfinu þegar klósettpappírinn kom fljúgandi úr öllum áttum.

Tryggvi stóð sig vel þær sextán mínútur sem hann spilaði, skoraði sjö stig, tók fimm fráköst, gaf tvær stoðsendingar og varði eitt skot.

Hér fyrir neðan má sjá þessar upphafssekúndur í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×