Handbolti

Valur einum sigri frá úr­slitum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úlfar Páll fór fyrir sínum mönnum.
Úlfar Páll fór fyrir sínum mönnum. Vísir/Jón Gautur

Valur lagði Aftureldingu með minnsta mun í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Olís deildar karla í handbolta. Lokatölur 30-29 og Valur nú aðeins einum sigri frá því að leika um Íslandsmeistaratitilinn.

Leikurinn var nokkuð jafn framan af fyrri hálfleik en um miðbik hans tóku gestirnir úr Mosfellsbæ völdin á vellinum og leiddu með fjórum mörkum þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks, staðan þá 12-16.

Gestirnir voru áfram með undirtökin en um miðjan síðari hálfleik fundu Valsmenn taktinn, þeir jöfnuðu metin í 22-22 og eftir það var leikurinn hnífjafn. Á endanum voru það Valsmenn sem reyndust sterkari þegar allt var undir, lokatölur 30-29 og Valur fer í úrslit með sigri í Mosfellsbæ í næsta leik.

Úlfar Páll Monsi Þórðarson var magnaður í liði Vals með 11 mörk. Bjarni í Selvindi kom þar á eftir með sex mörk. Hjá Aftureldingu skoraði Blær Hinriksson 10 mörk. Björgvin Páll Gústavsson varði 11 skot í marki Vals á meðan Einar Baldvin Baldvinsson varði 13 skot í marki Aftureldingar.

Blær var frábær í liði Aftureldingar.Vísir/Jón Gautur

Handbolti.is greindi frá því fyrr í kvöld að fjöldi Færeyinga hefði lagt leið sína til Íslands til að sjá sína menn enda nokkrir Færeyingar í eldlínunni í leik kvöldsins. Það virðist hafa gefið Bjarna byr undir báða vængi og spurning hvort Valur biðji Færeyingana ekki um að mæta einnig á leik liðanna í Mosfellsbæ á mánudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×