Fótbolti

Fótboltamaður lést í upp­hitun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sinamandla Zondi var 22 ára varnarmaður og fastamaður í liði sem var á hraðferð upp í úrvalsdeildina í Suður-Afríku
Sinamandla Zondi var 22 ára varnarmaður og fastamaður í liði sem var á hraðferð upp í úrvalsdeildina í Suður-Afríku @DurbanCity_FC

Suður-afríski fótboltamaðurinn Sinamandla Zondi lést eftir að hafa hnigið niður rétt fyrir deildarleik í Suður Afríku.

Zondi var að undirbúa sig fyrir það að spila með Durban City í suður-afrísku b-deildinni þegar hann féll í jörðina í upphitun fyrir leikinn.

Zondi var fluttur á sjúkrahús en ekki tókst að bjarga lífi hans. Leikurinn fór samt af stað þrátt fyrir atvikið en var flautaður af í hálfleik eftir að fréttist af því að Zondi væri allur.

Það er ekki ljóst hver dánarástæðan var en Zondi var aðeins 22 ára gamall.

„Því miður þurfum við að færa ykkur þær sorgarfréttir að Sinamandla Zondi, kallaður Sgora, er allur en hann var elskaður meðlimur af Durban City fjölskyldunni,“ sagði í tilkynningu frá félaginu.

„Sinamandla var meira en hæfileikaríkur fótboltamaður. Hann var liðsfélagi, vinur, bróðir, sonur og innblástur fyrir alla sem þekktu hann.“

„Hugur okkar og samúð er hjá fjölskyldu hans, vinum, liðsfélögum, þjálfurum og öllum sem syrgja þennan mikla missi. Við munum halda áfram að styðja þau sem sem eiga um sárast að binda vegna fráfalls hans,“ sagði í fyrrnefndri fréttatilkynningu félagsins.

Zondi var varnarmaður og lék sinn fyrsta leik i atvinnumennsku í september 2021. Hann hefur verið fastamaður í liðinu á þessari leiktíð og liðið er í efsta sæti deildarinnar og á leið upp í úrvalsdeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×