Körfubolti

Allt undir í odda­leik: Sjaldan mætt liði á Ís­landi með jafn mikil ein­stak­lings­gæði

Aron Guðmundsson skrifar
Mikil spenna ríkir fyrir oddaleik Stjörnunnar og Grindavíkur í undanúrslitum Bónus deildarinnar í körfubolta í kvöld
Mikil spenna ríkir fyrir oddaleik Stjörnunnar og Grindavíkur í undanúrslitum Bónus deildarinnar í körfubolta í kvöld Vísir/Guðmundur Þórlaugarson

Stjarnan og Grinda­vík mætast í odda­leik í undanúr­slitum Bónus deildar karla í körfu­bolta í kvöld. Eftir spennu­trylli í leik fjögur segist Baldur Þór Ragnars­son, þjálfari Stjörnunnar, sjaldan á Ís­landi hafa þurft að glíma við lið með eins mikil ein­stak­lings­gæði og lið Grinda­víkur.

„Þetta leggst vel í mig. Það eru náttúru­lega bara forréttindi að fá að taka þátt í leik fimm. Ég er spenntur fyrir því að taka þátt í þessu,“ segir Baldur í sam­tali við íþrótta­deild en eftir mikinn spennu trylli í leik fjögur í Smáranum, þar sem að Grinda­vík átti magnaða endur­komu hefur Baldur fengið tíma til að melta hlutina.

„Þetta var kannski bara í takt við seríuna. Við erum búnir að taka einn svona leik á móti þeim, höfum unnið einn leik þar sem að við vorum betri aðilinn og þeir svo sömu­leiðis. Þetta er búið að vera frekar mikið stál í stál allan tímann. Þetta er úr­slita­keppnin og það getur allt gerst í þessu. Það er hægt að segja ef og hefði, hitt og þetta, með þennan leik en maður er með ein­beitinguna á leiknum í kvöld.“

Stjarnan virtist vera með leik fjögur undir öruggri stjórn og sæti í úr­slitum Bónus deildarinnar innan seilingar en Grind­víkingar fundu leik til baka og knúðu fram odda­leik kvöldsins. Mætti telja að um högg hafi verið að ræða fyrir Stjörnu­menn sem höfðu leikinn í höndum sér.

Hvernig hefur verið að rífa menn upp eftir leik fjögur í Smáranum?

„Það gerist svolítið af sjálfu sér. Þegar að öllu er á botninn hvolft eru allir þeir leik­menn sem taka þátt í úr­slita­keppninni í dag eru búnir að vera það lengi að spila körfu­bolta að það að tapa leikjum gefur þér ákveðna hvatningu. Þú vilt bara stíga upp og bæta þig, gera betur. Við höfum séð allt í þessari úr­slita­keppni og það er ein af ástæðunum fyrir því að stundum vinnast bara leikir á úti­velli því þá er liðið alltaf að svara hinu liðinu. Við erum bara spenntir fyrir því að taka þátt í leik fimm og lítum á það sem forréttindi að fá að upp­lifa þannig leik.“

Baldur Þór fer yfir málin með sínum mönnum í StjörnunniVísir/Guðmundur

Odda­leikurinn í Garða­bænum í kvöld, Stjarnan á heima­velli og hefur leitt ein­vígið.

Er pressan á ykkur?

„Þú ert náttúru­lega að spila á móti tveimur NBA leik­mönnum hinu megin. Pressan er auðvitað bara á öllum sem taka þátt í leiknum. Við höfum sett pressu á okkur frá degi eitt, við erum með gott lið og það er góður andi. Við hreyfum boltann vel, vinnum vel saman en verk­efnið er erfitt á sama tíma. Við verðum að vera mjög góðir til að vinna þá. Það eru rosa­leg ein­stak­lings­gæði sem við erum að eiga við og ég hef ekki þurft að eiga oft við á Ís­landi áður. Þetta er bara mikil áskorun. Allir leikirnir eru búnir að vera rosa­lega mikið stál í stál og ég reikna með því partýi áfram.“

Hver hefur áherslan verið hjá þér milli leikja?

„Í fyrsta lagi er bara svo stutt á milli leikja að ein­beitingin hefur verið á endur­heimt. Annars held ég að þemað í seríunni hjá báðum liðum hefur verið reyna finna eitt­hvað út úr þessum varnar­leik. Það er alltaf verið að skora eitt­hvað í kringum hundrað stig, bæði lið, í öllum leikjunum. Það fer ekkert á milli mála að við höfum svo verið að ströggla með DeAndre Kane og Jeremy Pargo og það sem að þeir ná að búa til. Á sama tíma er Grinda­vík að ströggla með bolta­hreyfingu hjá okkur, screen frá boltanum og hraðar sóknir. Þemað er búið að vera allan tímann á þá leið að liðin eru ekkert búin að ná tökum á þessu ein­hvern veginn. Þetta er bara búið að vera þemað frá leik eitt. Ég býst bara við stál í stál í kvöld. Svo dettur þetta öðru hvoru megin.“

Oddaleikur Stjörnunnar og Grindavíkur í undanúrslitum Bónus deildarinnar verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld og hefst klukkan korter yfir 19:15. Upphitun með Stefáni Árna Pálssyni og sérfræðingum hans hefst klukkan hálf sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×