Handbolti

Bjarki kallaður inn í lands­liðið

Sindri Sverrisson skrifar
Bjarki Már Elísson er klár í slaginn með íslenska landsliðinu.
Bjarki Már Elísson er klár í slaginn með íslenska landsliðinu. VÍSIR/VILHELM

Bjarki Már Elísson hefur verið kallaður inn í landsliðið fyrir síðustu tvo leikina í undankeppni EM í handbolta.

Bjarki kemur inn í hópinn vegna meiðsla Stivens Tobar Valencia og því munu þeir Bjarki og Orri Freyr Þorkelsson mynda vinstra hornamannapar Íslands í komandi leikjum.

Bjarki kemur til móts við íslenska hópinn í dag en Ísland mætir Bosníu ytra á miðvikudagskvöld, klukkan 18 að íslenskum tíma, og tekur svo á móti Georgíu á sunnudaginn í Laugardalshöll í sínum síðasta heimaleik á árinu.

Strákarnir okkar hafa þegar tryggt sig inn á Evrópumótið því Ísland er með átta stig í sínum undanriðli, eða fullt hús stiga. Georgía er með fjögur stig og Bosnía og Grikkland tvö stig hvort.

Á EM verður Ísland í riðli sem spilaður verður í Kristianstad í Svíþjóð, og svo mögulega í milliriðli í Malmö. Dregið verður í riðla í Herning í Danmörku 15. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×