Körfubolti

Hamarsmenn tryggðu sér odda­leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Spánverjinn Jose Medina var mjög góður í kvöld.
Spánverjinn Jose Medina var mjög góður í kvöld. Vísir/Vilhelm

Hamar jafnaði í kvöld metin í einvígi sínu á móti Ármanni í úrslitakeponi 1. deildar karla í körfubolta. Liðin eru að keppa um laust sæti í Bónus deild karla á næsta tímabili.

Hamar vann leikinn með sex stiga mun, 98-92, en Ármenningar voru næstum því búnir að koma sér inn í leikinn í lokin.

Bæði lið hafa unnið báða heimaleiki sína til þessa og staðan er því 2-2. Oddaleikur og hreinn úrslitaleikur um sæti fer fram í Laugardalshöllinni á mánudagskvöldið.

Spánverjinn Jose Medina var frábær með 35 stig og 9 stoðsendingar fyrir Hamar en Bandaríkjamaðurinn Jaeden King skoraði 30 stig og tók 14 fráköst.

Jaxson Baker skoraði 23 stig fyrir Ármann, Adama Darboe skoraði 21 stig og Cedrick Bowen var með 14 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar.

Eins og hinum leiknum í Hveragerði þá komust Ármenningar lítið áleiðis gegn grimmum heimamönnum.

Ármann var reyndar 28-24 yfir eftir fyrsta leikhlutann en Hamarsmenn tóku öll völd í öðrum leikhluta, unnu hann 26-15 og voru sjö stigum yfir í hálfleik, 50-43.

Hamarsliðið bætti við forskotið sitt í þriðja leikhluta og var sautján stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 80-63.

Hamarsmenn sigldu síðan sigrinum í höfn í lokaleikhlutanum þrátt fyrir fína endurkomu gestanna og fá að launum hreinan úrslitaleik um sæti í úrvalsdeild karla í körfubolta á næstu leiktíð.

Hamar var síðast í úrvalsdeildinni 2024 en Ármenningar hafa ekki verið þar í 44 ár (1981).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×