Erlent

„Fá­tækasti for­seti heims“ látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Jose „Pepe“ Mujica fyrir utan heimili sitt í útjaðri Montevideo árið 2014.
Jose „Pepe“ Mujica fyrir utan heimili sitt í útjaðri Montevideo árið 2014. AP

Jose „Pepe“ Mujica, fyrrverandi forseti Úrúgvæ, er látinn, 89 ára að aldri. Hann gegndi embætti forseta landsins á árunum 2010 og 2015.

Mujica var mikill vinstrimaður, var þekktur fyrir hófsemdarlífsstíl sinn, gaf stóran hluta tekna sinna til góðgerðarmála og var fyrir vikið kallaður „fátækasti forseti heims“.

Mujica hafði glímt við krabbamein en hann greindist á síðasta ári. Eftirlifandi eiginkona hans, Lucia Topolansky, tilkynnti í síðustu viku að Mujica fengi líknandi meðferð.

Það var Yamandu Orsi, núverandi forseti Úrúgvæ, sem greindi frá andláti Mujica í gær. „Það er með mikilli sorg sem við tilkynnum um andlát félaga Pepe Mujica. Forseti, aðgerðarsinni, leiðarljós og leiðtogi. Við munum sakna þín mikið, gamli vinur,“ sagði Orsi á samfélagsmiðlinum X.

Mujica var mikilli gagnrýnandi neyslumenningar og var þekktur fyrir að klæðast reglulega sandölum á opinberum viðburðum. Þá vakti það athygli að hann neitaði að búa í forsetahöllinni í höfuðborginni Montevideo þegar hann tók við forsetaembættinu og bjó áfram á bóndabæ sínum í útjaðri höfuðborgarinnar. Í forsetatíð sinni löggilti Mujica bæði þungunarrof, kannabis og hjónabönd samkynhneigðra.

Mujica stofnaði uppreisnarsveitina Tupamaros á sjöunda áratug síðustu aldar og sat á bak við lás og slá allt frá 1973 til 1985, á tímum einræðisstjórnarinnar í landinu. Eftir að hann slapp úr fangelsi hóf hann pólistískan feril sinn og stofnaði stjórnmálahreyfinguna MPP árið 1989.

Hann var kjörinn á þing árð 1995 og tók sæti í efri deild úrúgvæska þingsins fimm árum síðar. Hann varð síðar landbúnaðarráðherra í fyrstu vinstristjórn landsins og varð svo kjörinn forseti 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×