Viðskipti innlent

Heildar­virði tæpur 91 milljarður og líkur á að nær allir hlutir fari til al­mennings

Eiður Þór Árnason skrifar
Höfuðstöðvar Íslandsbanka í Smáranum í Kópavogi. Allur 45,2% eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka var til sölu í útboðinu.
Höfuðstöðvar Íslandsbanka í Smáranum í Kópavogi. Allur 45,2% eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka var til sölu í útboðinu. Vísir/Vilhelm

Heildarvirði nýafstaðins útboðs ríkissjóðs á hlutum í Íslandsbanka nemur 90,58 milljörðum króna. Líkur eru á því að nær allir seldir hlutir fari til al­mennings. Meira en tvöföld umframeftirspurn var eftir hlutum í útboðinu og nam hún um 100 milljörðum króna.

Stjórnvöld ákváðu fyrr í dag að auka magn í útboði almennra hluta og selja allan 45,2% eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Fjármála- og efnahagsráðuneytið greinir frá helstu niðurstöðum útboðsins í tilkynningu en tilboðstímabilinu lauk klukkan 17 í kvöld. Útboðsgengi tilboðsbókar A var fast 106,56 krónur á útboðshlut. Á sama tíma var útboðsgengi tilboðsbókar B og tilboðsbókar C sömuleiðis 106,56 krónur á hlut þar sem tilboð í tilboðsbók A fóru verulega umfram grunnmagn útboðsins. 

Bendi til að allt fari í tilboðsbók A

Sérfræðingar sem fréttastofa ræddi við segja að í ljósi þess að útboðsgengi tilboðsbókanna er það sama sé útlit fyrir að allir hlutirnir fari í tilboðsbók A sem er einungis ætluð almenningi en einstaklingar nutu forgangs í útboðinu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka. Fari svo að einhverjir muni ekki geta staðið við áskriftartilboð sín í tilboðsbók A gætu þeir hlutir farið áfram í tilboðsbók B og C sem voru aðgengilegar stærri fagfjárfestum. 

Bæði lögaðilar og almenningur gátu boðið í tilboðsbók B fyrir að lágmarki tvær milljónir króna. Tilboðsbók C var opin eftirlitsskyldum fagfjárfestum sem uppfylltu það skilyrði að samanlögð fjárhæð eigna þeirra sé jafnvirði 70 milljarða króna eða hærri. Tilboðsbók A var eingöngu ætluð einstaklingum með íslenska kennitölu og var heimilt að gera tilboð á bilinu 100 þúsund krónur til 20 milljóna króna. 

Von á tilkynningu í fyrramálið

Tilboð sem bárust á grundvelli tilboðsbókar A njóta forgangs við úthlutun. Þá er gert er ráð fyrir að fjárfestum verði tilkynnt um úthlutun vegna tilboðsbókar A fyrir opnun markaða á morgun þann 16. maí, að því er fram kemur í tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Þar segir jafnframt að komi til þess að frekari hlutir séu í boði eftir úthlutun til einstaklinga, muni fjárfestar í tilboðsbók B og C fá upplýsingar um úthlutun miðvikudagsmorguninn 21. maí.

„Um talsverða heildareftirspurn og verulega eftirspurn innanlands var að ræða í útboðinu og sýndu bæði almennir fjárfestar og fagfjárfestar, sem og innlendir og erlendir, útboðinu mikinn áhuga. Við úthlutun verður sérstök áhersla lögð á að tryggja þátttöku einstaklinga og því verða áskriftir í tilboðsbók A ekki skertar. Auk þess var leitast við að laða að stóra eftirlitsskylda fagfjárfesta þar sem eftirspurn var umtalsverð,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Fjöldi almennra hluta sem seldir voru í útboðinu eru 850.000.007 sem svarar til 45,2% af útistandandi hlutafé Íslandsbanka.

Fréttin og fyrirsögn hennar hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Líklega stærsta eignasala ríkissjóðs frá upphafi

Ritstjóri Innherja telur líklegt að hátt í hundrað milljarðar króna fáist fyrir hlut ríkisins í Íslandsbanka í yfirstandandi söluferli. Líklega sé um að ræða stærstu eignasölu ríkissjóðs frá upphafi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×