Íslenski boltinn

Þeir bestu (5. sæti): Glasið alltaf hálf­fullt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmaðurinn sem endaði í sæti 5.
Leikmaðurinn sem endaði í sæti 5. grafík/sara

Hér er farið yfir leikmanninn sem endaði í 5. sæti í valinu á bestu leikmönnum í efstu deild karla í fótbolta frá 1992.

5. Guðmundur Benediktsson

  • Lið: Þór, KR, Valur
  • Staða: Framherji
  • Fæðingarár: 1974
  • Íslandsmeistari: 1999, 2000, 2002, 2007
  • Bikarmeistari: 1995, 1999, 2005
  • Leikir: 237
  • Mörk: 57
  • Stoðsendingar: 87
  • Leikmaður ársins: 1999
  • Tvisvar sinnum í liði ársins
  • Bronsskór: 1996

Hvort er glasið hálffullt eða hálftómt þegar litið er yfir feril Guðmundar Benediktssonar? Hann hefði auðvitað allar forsendur til að komast í fremstu röð nema eðlileg hné. En það er samt aðdáunarvert hverju Gummi áorkaði miðað við að hafa slitið krossbönd jafn oft og flestir fá flensu.

Guðmundur Benediktsson fagnar marki á Meistaravöllum ásamt Ríkharði Daðasyni.kr

Það eru ekki bara titlarnir, mörkin og stoðsendingarnar (þær flestu í sögu efstu deildar) heldur er það staðan sem Gummi er með hjá tveimur sigursælustu fótboltafélögum Íslands. Hann er goðsögn í KR og Val eins og húsvörðurinn á Hlíðarenda sagði þegar Stuart, hinn erkienski stuðningsmaður KR, ætlaði að snapa slag við hann í frægu atriði í Drekasvæðinu.

Gummi skoraði kannski aldrei meira en níu mörk á tímabili en þau voru þeim mun flottari. Utanfótarsnuddan uppi á Skaga, ótrúlega markið gegn Fram 1999, vippan gegn AIK, vinstri fótar skotið á lofti í slána og inn gegn ÍA, aukaspyrnan í Keflavík, skotið á lofti gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli og svo mætti áfram telja. 

Gummi gerði líka alla sem hann spilaði með betri, hvort sem þeir hétu Mihajlo Bibercic, Ríkharður Daðason, Andri Sigþórsson, Sigurður Ragnar Eyjólfsson, Helgi Sigurðsson eða Björgólfur Takefusa. Þeir nutu allir góðs af samstarfinu við Gumma og unnu markaskó þegar þeir spiluðu með honum.

Tímabilunum 1996 og 1999 hjá Gumma hafa verið gerð góð skil. Hann var auðvitað svo rjúkandi heitur í fyrri umferðinni 96 að annað eins hefur varla sést áður en hnéð gaf sig í toppslag gegn ÍA. Hann skoraði með hægri, vinstri, skalla, beint úr aukaspyrnum og frá miðju og enginn fékk neitt við ráðið.

Tímabilin 1996 og 1998 fengu tragíska endi hjá Gumma og KR en ekkert fékk þau stöðvað 1999. KR-ingar urðu tvöfaldir Íslandsmeistarar á aldarafmælinu, Gummi skoraði níu mörk, var stoðsendingakóngur og valinn bestur.

Eftir nokkur meh ár hjá KR fylgdi Gummi Willum Þór Þórssyni til Vals 2005. Það reyndust ein áhrifamestu félagsskipti í sögu íslenska boltans. Eftir áralangt rugl varð Valur bikarmeistari 2005 og svo Íslandsmeistari tveimur árum síðar, í fyrsta sinn síðan 1987.

Gummi lék eitt ár með Val áður en hann lauk ferlinum í KR 2009. Gummi kom loks inn í byrjunarlið KR um mitt mót og sóknarleikur Vesturbæinga stökkbreyttist eftir það. KR-ingar unnu tíu af ellefu leikjum sínum í seinni umferðinni og skoruðu 35 mörk. Hvað ef Logi Ólafsson hefði sett Gumma fyrr í byrjunarliðið? Hefði titilinn, jafnvel báðir, farið í Frostaskjólið? Það fáum við aldrei að vita en Gummi endaði allavega ferilinn með flottum svanasöngi.


Tengdar fréttir

Þeir bestu: Fylgt úr hlaði

Vísir gerðist stórhuga og ákvað að setja saman lista yfir sextíu bestu leikmenn efstu deildar karla frá 1992. Listinn yfir þessa sextíu leikmenn birtist á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×