Skoðun

Ætlar Ís­land að fara sömu leið og Evrópa í út­lendinga­málum?

Kári Allansson skrifar

Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgð á óstjórn og ófremdarástandi í útlendingamálum. Tilraunir síðustu tveggja dómsmálaráðherra flokksins miðuðu að því að á Íslandi giltu sömu reglur og á Norðurlöndunum. Það er skoðun undirritaðs að það viðmið hafi falið í sér of litlar breytingar sem auk þess urðu allt of seint. Vildu íslenskir kjósendur virkilega fara sömu leið og Norðurlöndin í útlendingamálum?

Nú kveður við nýtt sósíaldemókratískt Viðreisnarviðmið frá dómsmálaráðuneytinu. Farið er úr öskunni í eldinn. Fram undan eru breytingar í útlendingamálum og á landamærunum, meðal annars innleiðing nýs verndar-og fólksflutningasamkomulags Evrópusambandsins. Vilja íslenskir kjósendur nú fara sömu leið og Evrópusambandið í útlendingamálum? Sýnist mönnum ástandið heilt yfir vera gott í Evrópu?

Ísland er fullvalda ríki, að minnsta kosti ennþá, og þarf hvorki að spyrja kóng né prest að því hverjir megi koma til Íslands eða dveljast hér. Í stað þess að eltast við fyrirmyndir frá Norðurlöndunum eða Evrópusambandinu, þar sem illa hefur tekist til, ættu Íslendingar að hafa vit á að hugsa sjálfstætt. Íslenskum stjórnmálamönnum ber að setja hagsmuni íslenskra kjósenda í fyrsta sæti. Fjöldi útlendinga á Íslandi þarf að vera viðráðanlegur í öllu tilliti. Annað er óábyrgt gagnvart öllum aðilum.

Höfundur er lögfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×