Fótbolti

Ís­land mætir ekki Maríu en glímir við þrjár úr stærsta leik ársins

Sindri Sverrisson skrifar
Caroline Graham Hansen hefur raðað inn mörkum og stoðsendingum fyrir Barcelona í vetur og getur orðið Evrópumeistari þriðja árið í röð með liðinu á laugardaginn. Hún mætir svo Íslandi í næstu viku.
Caroline Graham Hansen hefur raðað inn mörkum og stoðsendingum fyrir Barcelona í vetur og getur orðið Evrópumeistari þriðja árið í röð með liðinu á laugardaginn. Hún mætir svo Íslandi í næstu viku. Getty/Maja Hitij

Norska landsliðið mætir Íslandi með enn sterkari hóp en síðast og er núna með Caroline Graham Hansen til taks, fyrir leikinn mikilvæga í Þjóðadeild kvenna í fótbolta í næstu viku.

Gemma Grainger, landsliðsþjálfari Noregs, tilkynnti í dag landsliðshóp sinn fyrir leikina við Ísland 30. maí og Sviss 3. júní, í lokaumferðum riðlakeppni Þjóðadeildarinnar. 

Liverpool-stjarnan Sophie Román Haug var ekki valin og ekki heldur reynsluboltarnir Maren Mjelde og María Þórisdóttir, dóttir Þóris Hergeirssonar ráðgjafa HSÍ. Mjelde ku þó eiga við meiðsli að stríða.

Ísland, Noregur og Sviss eru í harðri baráttu um að halda sér í A-deild á meðan að Frakkland hefur þegar tryggt sér sigur í riðlinum og sæti í undanúrslitum keppninnar, með því að vinna alla fjóra leiki sína. 

Hörð barátta um að halda sér uppi í aðdraganda HM

Noregur er með 4 stig, Ísland 3 stig og Sviss 2 stig en neðsta liðið fellur beint niður í B-deild og næstneðsta liðið fer í umspil við lið úr B-deild, um sæti í A-deild á næstu leiktíð. Liðið sem endar í 2. sæti er öruggt um að halda sér í A-deild. Sæti í A-deild er afar mikilvægt upp á baráttuna um sæti á næsta heimsmeistaramóti að gera.

Graham Hansen, ein allra besta knattspyrnukona heims, er í norska hópnum eftir að hafa misst af markalausa jafnteflinu í Laugardal í apríl. Hún spilar fyrst stærsta leik ársins; úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu við Arsenal á laugardaginn.

Það gera sömuleiðis Ingrid Syrstad Engen, einnig með Barcelona, og Frida Maanum með Arsenal, sem báðar eru í norska hópnum.

Ísland og Noregur eiga svo einnig eftir að mætast á Evrópumótinu í júlí.

Norski hópurinn gegn Íslandi og Sviss:

Markmenn: Cecilie Fiskerstrand, Aurora Mikalsen, Selma Panengstuen

Varnarmenn: Tuva Hansen, Guro Bergsvand, Marthine Østenstad, Thea Bjelde, Marit Bratberg Lund, Emilie Woldvik, Mathilde Hauge Harviken

Miðjumenn: Ingrid Syrstad Engen, Vilde Bøe Risa, Justine Kielland, Lisa Naalsund, Frida Maanum, Karina Sævik

Sóknarmenn: Guro Reiten, Celin Bizet Ildhusøy, Signe Gaupset, Synne Jensen, Caroline Graham Hansen, Ada Hegerberg, Elisabeth Terland




Fleiri fréttir

Sjá meira


×