Innlent

„Ein­hver erfiðasti tími sem ég hef gengið í gegnum“

Jón Þór Stefánsson skrifar
Ásthildur Lóa sneri aftur á Alþingi í dag.
Ásthildur Lóa sneri aftur á Alþingi í dag. Vísir/Arnar

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, sem sagði af sér sem barna- og menntamálaráðherra fyrr á þessu ári, segir að nú sé að baki einn erfiðasti tími sem hún hafi gengið í gegnum. Hún þakkar fjölda fólks fyrir að styðja hana á þessu erfiða tímabili, og segir stuðninginn hafa haldið sér á floti.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Ásthildur sneri aftur á Alþingi í dag eftir að hafa tekið sér leyfi frá þingstörfum, sem hún gerði samhliða því að segja af sér.

„Mér líður bara mjög vel núna og mér hefur verið einstaklega vel tekið af þinginu hér í dag, sérstaklega af stjórnarmeirihlutanum og ráðherrum og þeim sem við erum að starfa með. Það hefur verið alveg dásamlegt,“ sagði Ásthildur um fyrsta daginn á þinginu.

„Mér fannst þetta bara vera réttur tími. Ég vildi koma og klára þingið á þessu vori og takast á við það sem því fylgir. Og vinna að þeim góðu málum sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn er að vinna að.“

Ásthildur sagði af sér þann 23. mars síðastliðinn í kjölfar þess að greint var frá því að hún hefði eignast barn með sextán ára pilti þegar hún var á þrítugsaldri, en það var fyrir fyrir rúmum 35 árum.

Sérðu eftir því að hafa sagt af þér?

„Ég sé alveg eftir þeim verkefnum og því sem ég var að gera í ráðuneytinu. Ég geri það. En það var ekkert annað sem hægt var að gera. Þetta hefur verið einhver erfiðasti tími sem ég hef gengið í gegnum, svo það sé sagt,“ sagði Ásthildur Lóa.

Hún tók fram að hún hefði fundið fyrir ansi miklum stuðningi á þessum erfiðu tímum.

„En ég hef fengið alveg gríðarlegan stuðning. Það hefur í raun haldið mér á floti. Ég vil bara nota þetta tækifæri og þakka þeim hundruðum, ef ekki þúsundum, sem sendu mér skilaboð til að hvetja mig áfram. Það er ómetanlegt. Það er það sem hélt mér á floti, og stuðningur fjölskyldunnar og góðra vina. Þess vegna get ég staðið hérna í dag. Það er útaf öllum þessa góða stuðningi sem ég hef fengið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×