Skoðun

Takk Trump!

Trausti Breiðfjörð Magnússon skrifar

Þegar leigan þín eða afborganir af húsnæðisláni hækka á næstu mánuðum, þá veistu hverjum þú getur þakkað fyrir: Donald Trump Bandaríkjaforseta. Enn eina ferðina eru Bandaríkjamenn að vaða uppi eins og villimenn í Mið-Austurlöndum en ólíkt áður þá munu hernaðarævintýri þeirra nú að öllum líkindum hafa bein áhrif á pyngju Íslendinga.

Eftir ruddalegar loftárásir Ísraels og nú Bandaríkjanna samþykkti íranska þingið um helgina að loka Hormússundi. Þó atkvæðagreiðsla þingsins sé ekki bindandi þá má telja líklegt að stjórnvöld í Íran loki sundinu á næstu dögum. Það hefði í för með sér gríðarlegar afleiðingar, og er Ísland þar ekki undanskilið, en um 20 prósent af allri olíu í heiminum þarf að fara um sundið til að komast á markað. Þessi fordæmalausa aðgerð af hálfu Íran væri ekki í kortunum, ef það væri ekki fyrir fyrirvaralausa árás Ísraels.

Augljóslega mun verð á olíu rjúka upp ef af þessu verður, sem mun valda verðbólgu hér á landi. Þorri þjóðarinnar býr við ýmist verðtryggða leigu eða verðtryggð húsnæðislán. Afleiðingin af þessu hernaðarbrölti verður að venjulegt launafólk á Íslandi mun búa við krappari kost með hverjum mánuði sem líður. Þrátt fyrir að hafa lofað að binda enda á húsnæðiskrísuna á Íslandi þá virðist ríkisstjórnin ekki spá mikið í þessu.

Skipunum fylgt frá Washington

Bæði forsætisráðherra Íslands og utanríkisráðherra gefa frá sér yfirlýsingar sem fordæma Íran sérstaklega fyrir að gera það sem þau mega gera samkvæmt alþjóðasáttmálum. Íran hefur rétt á að verja sig, samkvæmt 51. grein Sameinuðu þjóðanna. Þessi afstaða kemur kannski ekki á óvart sé það haft í huga að utanríkisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, átti ríkan þátt í því að Ísland var á lista hinna viljugu þjóða þegar Bandaríkjamenn réðust inn í Írak árið 2003.

Ríkisstjórninni virðist meira annt um að fylgja skipunum frá Washington, heldur en að standa vörð um sjálfstæði okkar. Er hægt í raun og veru að kalla Ísland sjálfstætt land ef öll utanríkisstefna þjóðarinnar er ákveðin í höfuðborgum stórvelda? Vissulega getur litla Ísland lítið gert til að hafa áhrif á vopnaskak í Mið-Austurlöndum. En er það ekki eðlilegt lágmark að við mótmælum þegar hagsmunum þjóðarinnar er ógnað, líkt og nú, í stað þess að styðja þennan barbarisma?

Enginn flokkur á Alþingi virðist hafa vilja til að sýna sjálfstæði í verki. Svokallaðir fullveldissinnar í Miðflokknum myndu fagna því fyrstir ef hingað kæmi bandarískur innrásarher. Það sama má segja um Sjálfstæðisflokkinn, en sjálfstæðið er hvergi að finna nema í nafni þeirra. Svipaða sögu má segja um Samfylkinguna og Viðreisn, nema í stað Bandaríkjanna þá er það Evrópusambandið sem skal vera drottnarinn. Aðrir þegja þunnu hljóði.

Eina aflið sem raunverulega berst fyrir sjálfsákvörðunarrétti Íslands er Sósíalistaflokkur Íslands.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokki Íslands. 




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×