Skoðun

Við þurfum nýja sýn á stjórn­mál okkar - Mamdani-sýn

Hlynur Már Vilhjálmsson skrifar

Zohran Mamdani, framboðsefni Demókrata í Bandaríkjunum, er í raun og veru lausnin á þeirri pólitísku kreppu sem Vesturlöndin eru í. Í landi stjórnað af öfgamanni sem m.a. jók fylgi sitt um 7% í nýafstöðnum forsetakosningum í Bandaríkjunum og lækkaði um leið skatta á ríkasta fólk landsins á kostnað almennings tókst Mamdani að vinna hug New York-búa með öflugum aktivisma, sem fólst og felst í því að tala við mjög stóran hluta almennings í New York með vinnu sjálfboðaliða sem Mamdani og félagar hans lögðu í og leggja áherslu á jöfnuð og baráttu gegn okri leigusala og stórfyrirtækja. Gegn hugmyndafræði forseta Bandaríkjanna en einnig gegn hugmyndafræði stjórnarandstöðunnar í Bandaríkjunum.

Atriði sem eru mest áberandi í pólitík Mamdani eru frysting leigugreiðslna - sem felst í því að halda leigugreiðslum jafnháum frá byrjun kjörtímabils til enda kjörtímabils, frítt í strætó, fríum leikskólum, opnun matvörubúða á vegum New York-borgar til að bjóða upp á mat á hagstæðari verði, aukna fjármögnun og samvinnu við verkalýðsfélög um byggingu nýrra íbúða (eins og t.d. íbúðafélagið Bjarg á Íslandi), nýjar reglur um leigusala sem skikka þá til að halda ástandi íbúða í lagi ellegar muni borgin sjá um vinnuna og senda leigusala kostnaðinn. Þetta hyggst hann greiða með varlegum skattahækkunum á stórfyrirtæki og ríkustu einstaklingana til að fjármagna ofangreint. Þetta er hægt að gera á Íslandi einnig.

Viðbrögð stjórnmálastéttarinnar í Bandaríkjunum hafa verið á þá leið að stjórnmálafólk í flokknum hans talar gegn honum og jafnvel lýgur upp á hann og hinn stjórnmálaflokkurinn fer beinustu leið í harðasta rasismann og segir hann ekki hæfan því hann sé múslimi. Forseti Bandaríkjanna hefur ítrekað hótað reka hann úr landi á undanförnum vikum. Svo veltir fólk fyrir sér af hverju traust á stjórnmálum á Vesturlöndum hafi farið hrakandi á undanförnum áratugum, sem hefur svo valdið uppgangi öfgahægrihópa eins og forseti Bandaríkjanna er í forsvari fyrir.

Þarna er, líkt og í málefnum Gaza í Evrópu, stór gjá milli almennings annars vegar og stjórnmálastéttarinnar og fjölmiðla hins vegar þegar kemur að hugmyndafræði og vinnubrögðum. Íslendingar þurfa þannig ekki að fara að fordæmi stjórnmálastétta á Vesturlöndum eða fordæmi ríkisstjórna Íslands í dag og síðastliðna áratugi, við getum fylgt fordæmi Mamdani í staðinn. Bjóða mennskunni inn og henda illskunni út. Hlusta á fólkið í stað þess að segja því hvernig hlutirnir eigi að vera.

Verkefni næsta áratugar verður það að fara að fordæmi Mamdani, byggja upp samstöðu almennings með uppbyggingu aktivisma sem talar beint við stóran part fólksins í samfélögum okkar og innleiða nýjar stjórnmálaáherslur í íslenska og evrópska menningu, áherslur sem snúast um efnahagslegt og félagslegt réttlæti í samfélögum okkar og andstöðu við þjóðarmorð. Þetta getum við gert á Íslandi og við megum byrja strax.

Höfundur er fyrrum varamaður í borgarstjórn Reykjavíkurborgar, fyrrum trúnaðarmaður Sameykis og ávallt baráttumaður fyrir betra samfélagi á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×