Samtals námu tekjur BBA//Fjeldco, sem starfrækir einnig skrifstofu í London, ríflega 1.640 milljónum króna á síðasta ári, borið saman við 1.522 milljónir á árinu 2023. Lögmannsstofan varð til á grunni samruna BBA og Fjeldco árið 2019 og frá þeim tíma hefur velta sameinaðs félags aukist um meira en níutíu prósent samhliða því að afkoman hefur aukist yfir sama tímabil.
Halldór Karl Halldórsson, einn eigenda BBA//Fjeldco og faglegur framkvæmdastjóri félagsins, segir þetta vera til marks um þá eftirspurn sem er eftir þjónustu sem lögmannsstofan veitir íslenskum fyrirtækjum og stjórnvöldum.
Verkefni síðasta árs voru fjölbreytt og má þar nefna samruna JBT og Marel, sem eru með stærstu og flóknustu viðskiptum sem framkvæmd hafa verið hér á landi.
„Árangur félagsins endurspeglar það traust sem íslenskt atvinnulíf hefur sýnt BBA//Fjeldco undanfarin ár og hefur skilað okkur leiðandi stöðu á íslenskum markaði. Við leggjum mikla áherslu á að veita lausnamiðaða og fagmannlega þjónustu á grunni sérþekkingar sem við höfum aflað okkur. Verkefni síðasta árs voru fjölbreytt og má þar nefna samruna JBT og Marel, sem eru með stærstu og flóknustu viðskiptum sem framkvæmd hafa verið hér á landi,“ útskýrir Halldór Karl.
BBA//Fjeldco var innlendur lögfræðiráðgjafi fyrir Marel þegar JBT gerði yfirtökutilboð í allt hlutafé íslenska félagsins sem var samþykkt af stjórn snemma árs 2024. Vinna við samrunann stóð yfir allt síðasta ár en viðskiptin, sem voru verðmetin á samtals liðlega 3,6 milljarða evra, kláruðust um síðustu áramót með tvískráningu sameinaðs félags í Bandaríkjunum og á Íslandi.
Samkvæmt ársreikningi BBA//Fjeldco var rekstrarhagnaður lögmannsstofunnar rúmlega 540 milljónir á árinu 2024 og jókst um sjö prósent milli ára. Heildarhagnaður félagsins eftir skatta var hins vegar 428 milljónir og hækkaði um 28 milljónir frá fyrra ári.
Ásamt lögmannsstofunum LOGOS og LEX er BBA//Fjeldco í nokkrum sérflokki hér á landi þegar litið er til veltu og starfsmannafjölda. BBA//Fjeldco hefur á undanförnum árum verið leiðandi þegar kemur að ráðgjöf við kaup og sölu fyrirtækja, og haft aðkomu að flestum stærri fyrirtækjakaupum og sameiningum í íslensku viðskiptalífi.
Sjö stærstu hluthafar BBA//Fjeldco, hvor um sig með 10,75 prósenta hlut, eru þeir Bjarki Diego, Einar Baldvin Árnason, Gunnar Þór Þórarinsson, Halldór Karl Halldórsson, Kári Ólafsson, Páll Jóhannesson og Þórir Júlíusson. Hlutdeild hvers þeirra í hagnaði stofunnar á liðnu ári nemur því um 46 milljónum króna. Það er nokkuð betri niðurstaða borið saman við hlutdeild stærstu eigenda í hagnaði LOGOS og LEX á síðasta ári.
Fram kemur í skýrslu stjórnar BBA//Fjeldco í ársreikningi að allur hagnaður síðasta árs, eða um 430 milljónir, verði greiddur út í arð til hluthafa félagsins.
Starfsmönnum lögmannsstofunnar fjölgaði nokkuð á liðnu ári samhliða aukinni eftirspurn frá viðskiptavinum og í árslok 2024 voru þeir 45 talsins, einkum með sérhæfingu á ólíkum sviðum innan fyrirtækja- og viðskiptalögfræði. Launakostnaður félagsins jókst um rúmlega tíu prósent í fyrra og var samtals 848 milljónir.
Halldór Karl nefnir einnig að á sama tíma og félagið hélt áfram stöðugum vexti sínum á liðnu ári hafi verið lögð áhersla á nýja vaxtarbrodda til að sækja fram á erlendum mörkuðum. Þar ber hæst stofnun dótturfélagsins Elements en það veitir ráðgjöf á sviði endurnýjanlegrar orku um allan heim, meðal annars til stjórnvalda í ýmsum ríkjum. Elements er með skrifstofur bæði á Íslandi og í Frakklandi en lögmaðurinn Baldvin Björn Haraldsson leiðir starfsemi félagsins sem stjórnarformaður á meðan Antonie Lochet er framkvæmdastjóri Elements.
Að sögn BBA//Fjeldco hefur yfirstandandi ár farið vel af stað og er reiknað með áframhaldandi vexti. Lögmannsstofan hafi aukið umsvif sín í verkefnum á ýmsum sviðum, til dæmis tengdum jarðvarma og endurnýtanlegri orku og vex sá málaflokkur hratt. Þá hafa dótturfélög BBA//Fjeldco í London og Frakklandi haldið áfram að styðja við fjölbreytileg verkefni samstæðunnar,
Félagið hefur sömuleiðis komið að nokkrum stærri verkefnum sem af er árinu, meðal annars sem ráðgjafi við skráningu og hlutfjárútboð Alvotech í Svíþjóð og sem lögfræðiráðgjafi þegar íslenska ríkið kláraði sölu á eftirstandandi 45 prósenta hlut sínum í Íslandsbanka í lok síðasta mánaðar fyrir ríflega níutíu milljarða.