Viðskipti innlent

Forstjóraskipti hjá Ice-Group

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Jón Gunnarsson lætur af störfum sem forstjóri fyrirtækisins.
Jón Gunnarsson lætur af störfum sem forstjóri fyrirtækisins. Ice-Group/Aðsend

Jón Gunnarsson forstjóri sjávarútvegsfélagsins Ice-Group hefur látið af störfum sem forstjóri félagsins vegna aldurs eftir fimm ár í starfinu. Hann tekur við stjórnarformennsku hjá félaginu. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu. Við starfinu tekur Þór Hauksson, sem býr samkvæmt tilkynningunni yfir víðtækri reynslu í rekstri og stjórnun fyrirtækja, bæði á innlendum og erlendum vettvangi.

„Samhentur hópur eigenda hefur leitt félagið af fagmennsku og skilur eftir sig traustan grunn fyrir framtíðina. Félagið hefur undanfarin ár náð sterkri stöðu á markaði erlendis, eflt innviði og styrkt tengsl við lykilviðskiptavini. Félagið er í dag eitt öflugasta félag á sínu sviði á Norðurlöndum. Jón mun nú taka sæti sem stjórnarformaður félagsins. 

Með ráðningu Þórs Haukssonar hefst nýr kafli en að auki kemur Þór inn í hluthafahóp félagsins. Framundan eru spennandi tímar hjá Ice-Group og Þór mun leiða félagið með krafti og nýrri sýn inn í næsta skeið í þróun þess,“ er haft eftir Guðmundi G. Gunnarssyni stjórnarformanni Ice-Group. Félaginu var stýrt af Guðmundi frá stofnun þess árið 1997 þar til Jón tók við fyrir fimm árum.

Ice-Group sérhæfir sig í framleiðslu og sölu þurrkaðra fiskafurða og rekur meðal annars tvær þurrkverksmiðjur í Norður-Noregi, nánar tiltekið í Hammerfest og Bátsfirði. Velta félagsins undanfarin 5 ár hefur verið að meðaltali tæpir þrír milljarðar króna. og hagnaðurinn um 300 milljónir króna. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×