Skoðun

Sumar­or­lofið fór í bar­áttuna fyrir barni - er það sann­gjarnt?

Sigríður Auðunsdóttir skrifar

Nú þegar margir eru annaðhvort að ljúka orlofi sínu eða í miðju orlofi og nýta fríið til hvíldar og endurnýjunar. Þá er vert að minnast á að á sama tíma eru margir á Íslandi sem ekki njóta sömu réttinda til orlofs. Ástæðan er að mörg stéttarfélög og vinnuveitendur hafa ekki fellt inn ákvæði um 15 daga fjarveru vegna tæknifrjóvgunar inn í kjarasamninga sína. Þetta fólk þarf margt hvert að nýta allt upp að 10 - 15 dögum af 24 daga lágmarks orlofi sínu til meðferðar hér heima eða erlendis.

Frjósemisvandi er ekki eins sjaldgæfur og fólk gæti haldið. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) skilgreinir hann sem sjúkdóm og um eitt af hverjum sex pörum glímir við frjósemisvanda. Fyrir marga er ekki hægt að fá draum sinn að verða foreldri uppfylltan hérlendis og því leitar fólk út fyrir landsteinana. Aðrir búa út á landi og þurfa að sækja þjónusta til höfuðborgarsvæðisins. Í öllu þessu ferli fara oft fjöldi orlofsdaga. Þrátt fyrir að leita meðferðar erlendis eins og t.d. til Spánar og Grikklands er þetta langt frá því að vera frí. Hugurinn er allan tímann við meðferðina, vonina og óttann við hvort þetta takist í þetta skipti eða ekki.

Ferlið er ekki einfalt en því fylgir kvíði, vonbrigði, óvissa og hormónameðferðir. Það að verða foreldri getur verið langvarandi ferli, það er dýrt og mjög krefjandi bæði andlega og líkamlega.

Það er að okkar mati í Tilveru óréttlátt að fólk í þessari stöðu þurfi að fórna orlofinu sínu til að eiga möguleika á að verða foreldrar. Þetta á ekki að vera val milli hvíldar og drauma hjá einstaklingum.

Við í Tilveru, samtökum um ófrjósemi skorum því á öll stéttarfélög að setja klausuna um 15 daga fjarveru frá vinnu vegna tæknifrjóvgunar í kjarasamninga sína til að allir eigi sama rétt á orlofi.

Rétturinn til fjölskyldulífs á ekki að kosta bæði fjárhagslegt öryggi og andlega heilsu og alls ekki orlofið líka.

Höfundur er stjórnarmaður í Tilveru, samtaka um ófrjósemi.




Skoðun

Sjá meira


×