Innlent

Maður féll í Vestari-Jökulsá

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Útkallið barst lögreglu rétt fyrir klukkan eitt.
Útkallið barst lögreglu rétt fyrir klukkan eitt. Vísir/Vilhelm

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út á mesta forgangi um eittleytið vegna einstaklings sem féll í Vestari-Jökulsá í Skagafirði. 

Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í samtali við fréttastofu. Hann segir að þyrlan hafi verið kölluð út að beiðni lögreglunnar á Norðurlandi vestra. RÚV greindi fyrst frá. 

Sá sem féll í ána væri kominn á land en þyrlan væri engu að síður á leið á vettvang. 

Pétur Björnsson yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra segir í samtali við fréttastofu að lögreglumenn séu á leið á vettvang. Útkallið hafi borist klukkan 12:53.

Í Vestri-Jökulsá eru tvö ferðaþjónustufyrirtæki sem bjóða upp á flúðasiglingar, Bakkaflöt og Viking Rafting. Pétur segist í samtali við fréttastofu ekki geta staðfest hvort um flúðasiglingaslys ræðir.

Þjónustufulltrúar beggja fyrirtækja sögðu í samtali við fréttastofu að fyrirtækjunum hefðu borist upplýsingar um slysið en gátu ekki staðfest hvort um slys á þeirra vegum ræddi. Forsvarsmaður Viking Rafting staðfesti síðar að slysið hefði ekki orðið í ferð á vegum fyrirtækisins. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×