Erlent

Öf­ga­hægri­flokkur mælist stærstur í Þýska­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Alice Weidel, samkynhneigður hagfræðingur sem er búsettur í Sviss, hefur verið andlit Valkosts fyrir Þýskaland undanfarin ár.
Alice Weidel, samkynhneigður hagfræðingur sem er búsettur í Sviss, hefur verið andlit Valkosts fyrir Þýskaland undanfarin ár. Vísir/EPA

Rétt rúmur fjórðungur svarenda í nýrri skoðanakönnun í Þýskalandi sagðist kjósa öfgahægriflokkinn Valkost fyrir Þýskaland, fleiri en nokkurn annan stjórnmálaflokk. Afgerandi meirihluti er óánægður með störf Friedrichs Merz kanslara.

Valkostur fyrir Þýskaland (AfD) mælist með 26 prósent fylgi í könnun sem var birt í dag, að því er kemur fram í umfjöllun evrópsku útgáfu Politico. Flokkurinn er með tveggja prósentustiga forskot á Kristilega demókrata Merz kanslara. 

Kristilegir demókratar eru enn með naumt forskot á AfD í meðaltali skoðanakannana sem Politico heldur utan um. Merz kanslari fær sjálfur slæma útreið í könnuninni en tveir af hverjum þremur svarendum sögðust óánægðir með störf hans.

Öfgaflokkurinn er nú þegar stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þýska þinginu eftir bestu kosningaúrslit í sögu sinni í vetur þar sem hann fékk um fimmtung atkvæða. Enginn þýskur öfgahægriflokkur hefur hlotið eins góða kosningu frá því að nasistaflokkur Adolfs Hitler fékk um og yfir þriðjung atkvæða í síðustu frjálsu kosningunum í Þýskalandi við upphaf fjórða áratugs síðustu aldar.

AfD aðhyllist meðal annars harða stefnu í innflytjendamálum og oddvitar hans hafa meðal annars talað um fjöldabrottvísanir á fólk af erlendum uppruna frá Þýskalandi. Þýska leyniþjónustan hefur skilgreint nokkrar undirdeildir flokksins sem öfgasamtök sem ógni lýðræði í landinu. Til stóð að skilgreina flokkinn í heild sem öfgasamtök fyrr á þessu ári en því var frestað eftir að flokkurinn krafðist lögbanns.

Flokkurinn er einangraður á þýska þinginu þar sem aðrir flokkar neita að vinna með honum vegna öfgahyggju hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×