Umræðan

Ferða­þjónusta til fram­tíðar byggir á traustum inn­viðum

Kristófer Oliversson skrifar

Ferðaþjónusta á Íslandi hefur eflst og þróast hratt á síðasta áratug og er orðin mikilvægasta atvinnugrein landsins. Ytri aðstæður á borð við heimsfaraldur, óvissu í heimsmálum og þróun efnahags og gjaldmiðla hafa ráðið miklu um gang mál en innlendir þjónustuaðilar hafa sýnt seiglu og sveigjanleika og brugðist vel við síbreytilegum aðstæðum. Þegar horft er um öxl má sjá hversu mikilvægt er að byggja upp með langtímahagsmuni í huga þar sem sjálfbærni og arðsemi er í fyrirrúmi.

Mikilvæg stefnumótun

Samþykki Alþingis á ferðmálastefnu þvert á alla flokka árið 2024 er sérstakt fagnaðarefni. Þar er skýr áhersla á sjálfbærni á öllum sviðum, samkeppnishæfni og ávinning samfélagsins um allt land. Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar segir auk þess að stefnt sé að mótun auðlindastefnu um sjálfbæra nýtingu og að stuðla eigi að verðmætasköpun, öryggi og álagsstýringu í ferðaþjónustu. Það er langtímaverkefni að byggja upp öfluga sjálfbæra og arðbæra ferðaþjónustu.

Arðbær ferðaþjónustu um allt land hvílir á áreiðanlegum og traustum innviðum en þeir kalla á fjárfestingar sem leggja grunn að arðsemi til framtíðar. Öruggar samgöngur, góð og fjölbreytt gisting, aðgengileg upplýsingamiðlun og áhugaverð afþreying í boði stærstan hluta ársins eru innviðir sem þurfa að vera til staðar en eru það ekki enn í öllum landshlutum sem þó hafa uppá áhugaverða áfangastaði að bjóða. Þessa innviði þarf að byggja upp en til þess þarf stefnufestu, langtímahugsun og þolinmóða fjárhagslega bakhjarla.

Gjöld fyrir þjónustu er ekki arðsemi

Opinber umræða um hvað horfir til framfara í ferðaþjónustu hin síðari misseri hefur ekki beinst að uppbyggingu innviða eða aukinni álagsstýringu, betri dreifinguferðamanna um allt land, sjálfbærni eða arðbærni. Því miður hefur hún markast af vilja ríkisvaldsins til að auka tekjur sínar af greininni án þess að hún vaxi og deilum um undanþágur og fremur léttvægar greiðslur erlendra hótelskipa sem dvelja hér yfir sumartímann og geta aldrei orðið hluti af þeim kjarnainnviðum ferðaþjónustunnar sem við þurfum á að halda til að byggja upp öfluga atvinnugrein.

Þessar erlendu skipaútgerðir verða aldrei slíkar stoðir í íslensku samfélagi og þeirri staðreynd verður ekki breytt þó svo þær líkt og aðrir rekstraraðilar greiði eðlileg gjöld fyrir þjónustu sem innlendir aðilar veita þeim.

Hótelskip, sama hvort um ræðir risastór skemmtiferðaskip sem sigla til landsins eða minni skemmtiferðaskip sem bjóða gistingu hringinn í kringum landið, verða aldrei burðarás atvinnugreinarinnar. Skipin eru flest skráð í skattaskjólum og einkum í eigu þriggja erlendra skipafélaga og hafa fram á síðustu ár enga skatta greitt hér á landi. Allt starfsfólk skipanna er bæði skráð og búsett erlendis og greiðir ekki skatta hér á landi. Meginstuðningur fyrirtækja við samfélög felst í að veita íbúum atvinnu og greiða þeim laun og síðan að greiða skatta af rekstrartekjum og hagnaði. Þessar erlendu skipaútgerðir verða aldrei slíkar stoðir í íslensku samfélagi og þeirri staðreynd verður ekki breytt þó svo þær líkt og aðrir rekstraraðilar greiði eðlileg gjöld fyrir þjónustu sem innlendir aðilar veita þeim. Slík þjónustugjöld skapa aldrei þá arðsemi sem þarf að vera í íslenskri ferðaþjónustu né fjármuni til uppbyggingar.

Skattar og tollfrelsi

Innviðagjöld eru skref í rétta átt gagnvart stóru skemmtiferðaskipunum, þau eru mikilvægt skref til að jafna samkeppnisstöðu innan gistingarinnar og skila samfélaginu tekjum sem nýst geta til uppbyggingar innviða. Minni skemmtiferðaskipin sem eru hér yfir sumartímann greiða hins vegar einungis gistináttaskatt til jafns við hótel, sem talsmenn skipanna hafa þó kvartað sáran yfir þó þau greiði enga aðra skatta eins og gisting í landi. Þá hafa skipin notið tollfrelsis á varningi um borð, sem er lúxus sem rekstraraðilar í landi njóta ekki. Alþingi ákvað fyrir fáum árum að breyta lögum og afnema það tollfrelsi en sökum þrýstings frá talsmönnum skipanna hefur gildistöku þeirra laga ítrekað verið frestað svo tollfrelsið gildir enn.

Gæði ofar öllu

Í stefnumótun Alþingis í ferðaþjónustu er lögð áhersla á gæði, fagmennsku og öryggi og að upplifun gesta sé góð og í samræmi við væntingar þar sem náttúra, menning og fjölbreytt afþreying vegi þyngst.

Gæði í þjónustu kalla á uppbyggingu traustra innviða. Um allt land eru dæmi um farsæla þróun í ferðaþjónustu þar sem saman fara góðar samgöngur, uppbygging á góðri gistingu og veitingaþjónustu sem ber hróður staða víða og örugg þjónustu sem miðar að því að gestir upplifi íslenska náttúru á fjölbreyttan og einstakan hátt. Til að efla og styrkja ferðaþjónustu á landsbyggðinni og skapa þar verðmæt störf er nauðsynlegt að treysta þar lykilinnviði. Samgöngur skipta miklu en fleira þarf til. Uppbygging gistingar sem fullnægir þeim gæðum sem nútímaferðamenn kalla eftir er lykilþáttur. Til að sú þróun geti orðið með eðlilegum hætti gengur ekki upp að reksturinn standi höllum fæti frá fyrsta degi vegna samkeppni við aðila sem njóta undanþága frá opinberum gjöldum. Það hefur verið staðan gagnvart hótelskipum og heimagistingu.

Stjórnvöld sýni á spilin – uppbygging innviða

Í stefnumörkun núverandi ríkisstjórnar er lögð áhersla á álagsstýringu í ferðaþjónustu sem er mikilvæg til að ná markmiðum um verndun náttúruperla og tryggja gæði ferðaþjónustunnar sem felst ekki síst í upplifun ferðamanna á fjölsóttum ferðamannastöðum. Ljóst er að fjölmargir vinsælir viðkomustaðir á Suðurlandi, Norðurlandi og í miðborg Reykjavíkur eru löngum stundum svo fjölsóttir að aðdráttarafl þeirra hverfur. Í stefnumörkuninni segir að ríkisstjórnin muni fylgja ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Fróðlegt verður að sjá hvernig ríkisstjórnin hyggst útfæra álagsstýringu og aðrar aðgerðir á grunni stefnumörkunnar sinnar. Það er brýnt að þær línur skýrist sem fyrst til að auðvelda aðilum í greininni að byggja upp sína starfsemi til framtíðar og tryggja gæði í þjónustu.

Arðsöm ferðaþjónusta á Íslandi mun ekki byggja á afsláttum, lágum verðum eða undanþágum frá sköttum og skyldum, hvort sem þær undanþágur lúta að hótelskipum eða heimagistingu.

Sú ánægjulega þróun virðist eiga sér stað þetta árið að gistinóttum ferðamanna hér á landi fjölgar og það mest á landsbyggðinni. Er það helsta vísbending um að sá þáttur ferðaþjónustunnar sem skapar hvað mestan virðisauka sé að eflast og það hraðar á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Er það vel. Mikilvægt er að stjórnvöld fylgi eftir stefnumótun sinni í ferðaþjónustu með markvissum áætlunum um uppbyggingu innviða í samgöngum og stuðningi við aðra innviðauppbyggingu í ferðaþjónustu á landsbyggðinni.

Við sem störfum í ferðaþjónustu trúum því að íslensk náttúra sé aðdráttarafl sem gerir okkur kleift að bjóða ferðamönnum þjónustu í hæsta gæðaflokki sem skilar umtalsverðum verðmætum til fyrirtækja, starfsfólks, birgja og samfélagsins í heild. Arðsöm ferðaþjónusta á Íslandi mun ekki byggja á afsláttum, lágum verðum eða undanþágum frá sköttum og skyldum, hvort sem þær undanþágur lúta að hótelskipum eða heimagistingu. Fylgi stjórnvöld eftir stefnumótun sinni í ferðaþjónustu með markvissum aðgerðum og forystu í uppbyggingu innviða mun ekki standa á fyrirtækjum í greininni að nýta þau tækifæri sem gefast til verðmætasköpunar í framtíðinni líkt og þau hafa gert á síðasta áratug.

Höfundur er formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu.


Tengdar fréttir






×