Íslenski boltinn

Úlfur talinn sá allra besti vestan­hafs

Sindri Sverrisson skrifar
Úlfur Ágúst Björnsson hefur ekki getað klárað síðustu tímabil með FH vegna þess að hann spilar einnig með Duke háskólanum í Bandaríkjunum.
Úlfur Ágúst Björnsson hefur ekki getað klárað síðustu tímabil með FH vegna þess að hann spilar einnig með Duke háskólanum í Bandaríkjunum. vísir / ernir

FH-ingurinn Úlfur Ágúst Björnsson hefur verið valinn bestur allra leikmanna bandaríska háskólafótboltans nú þegar ný leiktíð fer að hefjast.

Úlfur skoraði tvö mörk í þrettán leikjum fyrir FH í sumar og hefur alls skorað átján mörk í 56 leikjum í efstu deild hér á landi.

Hann er nú farinn aftur út til Bandaríkjanna þar sem hann hefur tekið þátt í undirbúningstímabili með Duke háskólanum og byrjar sína þriðju leiktíð með liðinu á leik við San Diego á morgun.

Aðstandendur TopDrawerSoccer hafa nú tekið saman hundrað manna lista yfir bestu leikmenn háskólaboltans og setja Úlf þar í efsta sætið. Listinn verður svo uppfærður þegar líður á tímabilið.

Úlfur hefur farið á kostum fyrir Duke og skoraði þrettán mörk í nítján leikjum á síðustu leiktíð, auk þess að gefa þrjár stoðsendingar, og hefur alls skorað 23 mörk og gefið sjö stoðsendingar í 53 leikjum á tveimur tímabilum.

Það er sömuleiðis til marks um það í hve miklum metum Úlfur er í deildinni að hann komst í undanúrslit í valinu á MAC Hermann einstaklingsverðlaununum á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×