Sport

Gælir við HM eftir að hafa grýtt sleggjunni sjö­tíu metra

Sindri Sverrisson skrifar
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir heldur áfram að gera góða hluti með sleggjuna.
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir heldur áfram að gera góða hluti með sleggjuna. FRÍ

Á meðan íslenskt stjórnmálafólk deilir um sleggjunotkun gerði Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir sér lítið fyrir og grýtti sleggju 69,99 metra á sterku móti í Ungverjalandi í gær.

Mótið nefnist Pál Németh Memorial og er til minningar um sleggjukastþjálfarann virta Pál Nemeth sem þjálfaði meðal annars fyrrverandi Ólympíumeistarann Krisztián Pars.

Guðrún Karítas náði sínum besta árangri á ferlinum þegar hún lenti í 2. sæti mótsins í gær með fyrrnefndu kasti sem er sjö sentímetrum lengra en hún hefur áður náð.

Ljóst er að hún gæti á næstunni rofið sjötíu metra múrinn og orðið þar með önnur íslenska konan til að afreka það, á eftir Íslandsmethafanum Elísabetu Rut Rúnarsdóttur.

Í tilkynningu frá Frjálsíþróttasambandi Íslands segir að með árangrinum sé Guðrún Karítas heldur betur búin að blanda sér í baráttuna um sæti á HM sem fram fer í Tókýó í Japan 13.-21. september.

Tíminn til að tryggja sig inn á HM rennur út á sunnudaginn en Meistaramót Íslands fer einmitt fram um helgina og er þar með síðasti glugginn fyrir íslenska frjálsíþróttafólkið til að vinna sér inn farseðil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×