Fótbolti

Langri bið Sveindísar lauk með sætum sigri á meisturunum

Sindri Sverrisson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir hefur komið af krafti inn í lið Angel City.
Sveindís Jane Jónsdóttir hefur komið af krafti inn í lið Angel City. Getty/Ronald Martinez

Landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir var í fyrsta sinn í sigurliði með bandaríska liðinu Angel City í nótt og það gegn sjálfum meisturum Orlando Pride. Langri leit liðsins að sigri er þar með lokið.

Angel City hafði ekki unnið leik síðan 10. maí, eða löngu áður en Sveindís bættist í leikmannahópinn því hún byrjaði að spila með liðinu í byrjun þessa mánaðar.

Með Sveindísi í liðinu hefur Angel City aðeins tapað einum leik af fjórum en liðið hafði samt alls spilað átta leiki í röð án sigurs þegar það vann 1-0 gegn Orlando Pride í nótt, með marki í lok leiks. Sveindís hafði einnig sjálf beðið lengi eftir sigri, eftir þrjú töp með Íslandi á Evrópumótinu í Sviss áður en hún fór til Bandaríkjanna.

Hin tvítuga bandaríska landsliðskona Alyssa Thompson skoraði sigurmarkið í nótt með laglegum hætti, eftir að hafa farið illa með goðsögnina Mörtu sem er 39 ára fyrirliði Orlando Pride.

Sveindís var þarna farin af velli en hún lék fyrstu 72 mínútur leiksins þar til Christen Press kom inn á í hennar stað. Sveindís hafði hins vegar verið áberandi í leiknum og skapað hættu.

Hannah Seabert var að spila sinn annan leik í marki Angel City og varði stundum frábærlega í leiknum en hún hefur haldið hreinu í báðum leikjum sínum eftir komuna frá Sporting Lissabon.

Angel City er nú með 20 stig eftir 17 leiki, í 10. sæti af 14 liðum. Liðið er með jafnmörg stig og Gotham í 8. sæti en átta efstu liðin fara í úrslitakeppnina að loknum 26 umferðum og Sveindís og stöllur hennar hafa því níu leiki til að koma sér þangað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×