Innlent

Hundamatur reyndist vera kíló af kanna­bis

Agnar Már Másson skrifar
Maðurinn reyndi að flytja fíkniefnin inn í umbúðum fyrir hundamat. Tollverðir komust í stassið á undan honum og nú þarf hann að fara aftur í fangelsi. Mynd úr safni.
Maðurinn reyndi að flytja fíkniefnin inn í umbúðum fyrir hundamat. Tollverðir komust í stassið á undan honum og nú þarf hann að fara aftur í fangelsi. Mynd úr safni. Getty/Richard Levine

Alexander Máni Ingason var í gær dæmdur í tveggja mánaða fangelsisvist fyrir að flytja tæpt kílógramm af marijúana frá Taílandi til Íslands í hundamatsumbúðum í sumar. Hann var á reynslulausn vegna þyngri dóms en honum er nú aftur stungið í steininn.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir að Alexander, sem er tæplega tuttugu og tveggja ára, hafi játað sök í málinu. Tollurinn mun hafa lagt hald á umbúðirnar þegar þær komu með póstinum frá Taílandi.

Annar maður var skráður fyrir sendingunni, samkvæmt dómnum, og tveir menn til viðbótar höfðu ætlað sér að sækja hundamatinn á pósthús í Reykjavík en þá hafði Tollurinn fundið um 992 grömm af marijúana í hundamatsumbúðunum.

Ákæran var gefin út á hendur Alexander 1. júlí en í dómnum er tekið fram að hann eigi sér nokkurn brotaferil að baki.

Árið 2022 var Alexander dæmdur af Héraðsdómi Reykjaness í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás. Árið 2023 var hann svo dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps.

Hann fékk reynslulausn í fyrra á 1.450 daga eftirstöðvum refsingar en þegar upp komst um fíkniefnalagbrotið sem hér er fjallað um var hann færður í fangelsi að nýju fyrir rof á reynslulausn til afplánunar að nýju.

Hann fær því 60 daga fangelsisdóm sem ekki eru forsendur til að skilorðsbinda í ljósi sakarferils, segir í dómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×