Körfubolti

Bertone á leið í Stjörnuna en byrjar í fimm leikja banni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pablo Bertone í oddaleik Vals og Tindastóls um Íslandsmeistaratitilinn 2023. Hann fékk fimm leikja bann fyrir framkomu sína eftir leikinn.
Pablo Bertone í oddaleik Vals og Tindastóls um Íslandsmeistaratitilinn 2023. Hann fékk fimm leikja bann fyrir framkomu sína eftir leikinn. vísir/bára

Körfuboltamaðurinn Pablo Bertone er á leið til Íslandsmeistara Stjörnunnar. Hann byrjar tímabilið í fimm leikja banni.

Bertone þekkir vel til hér á landi en hann lék með Haukum og Val og varð Íslandsmeistari með síðarnefnda liðinu 2022.

Í samtali við Vísi í dag staðfesti Einar Karl Birgisson, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar, að Bertone væri á leið til Garðabæjarliðsins.

Einhver bið verður þó á því að Bertone spili fyrir Stjörnuna því hann þarf að taka út fimm leikja bann sem hann var úrskurðaður í eftir síðasta leik sinn fyrir Val.

Eftir oddaleik Vals og Tindastóls um Íslandsmeistaratitilinn 18. maí 2023 fór Bertone inn í herbergi dómaranna. Fyrir það var hann úrskurðaður í fimm leikja bann.

Stjarnan mætir Val í Meistarakeppni karla 28. september. Fyrstu fjórir leikir liðsins í Bónus deildinni eru svo gegn KR 2. október, Val 11. október, Keflavík 17. október og ÍR 24. október.

Aðspurður hvort Stjarnan myndi færa Bertone yfir til venslafélagsins KFG til að láta hann sitja af sér hluta af banninu þar sagði Einar að það hefði ekki verið rætt en sá möguleiki væri fyrir hendi. KFG verður búið að spila tvo leiki í 2. deildinni þegar keppni í Bónus deildinni hefst. 

Tímabilið 2022-23 skoraði Bertone 15,4 stig, tók 4,2 fráköst og gaf 3,5 stoðsendingar að meðaltali í leik í deildarkeppninni. Í úrslitakeppninni var hann með 14,3 stig, 4,9 fráköst og 3,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×