Erlent

Dæmdur í tuttugu og sjö ára fangelsi fyrir valdaránstilraun

Samúel Karl Ólason skrifar
Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseti Brasilíu, heilsaði ljósmyndurum fyrir utan heimili hans, þar sem hann er í stofufangelsi.
Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseti Brasilíu, heilsaði ljósmyndurum fyrir utan heimili hans, þar sem hann er í stofufangelsi. AP/Luis Nova

Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseti Brasilíu, hefur verið sakfelldur fyrir valdaránstilraun og dæmdur í 27 ára og þriggja mánaða fangelsi.  Hinn sjötugi Bolsonaro er sekur um að hafa ætlað að snúa úrslitum forsetakosninganna 2022, sem hann tapaði, með aðstoð fyrrverandi embættismanna og hermanna.

Forsetinn fyrrverandi var meðal annars ákærður fyrir að hafa ætla að eitra fyrir Luiz Inácio Lula da Silva, sem sigraði Bolsonaro í forsetakosningum 2022, og að skjóta Alexandre de Moraes, forseta hæstaréttar Brasilíu til bana.

Sjá einnig: Rétta yfir Bolsonaro fyrir valdaránstilraun

Ráðabruggið misheppnaðist, þar sem Bolsonaro náði ekki að afla sér nægilegs stuðnings innan hersins. Stuðningsmenn hans ruddu sér þó leið inn í ríkisbyggingar í janúar 2023 og frömdu þar skemmdarverk og þjófnað. Um 1.500 menn voru handteknir.

Var það eftir að þúsundir stuðningsmanna hans höfðu reist tjaldbúðir við herstöð og reynt að fá herinn til að koma í veg fyrir embættistöku Lula.

Sjá einnig: Bolsonaro í stofu­fangelsi

Fimm dómarar hæstaréttar Brasilíu koma að málinu að svo stöddu og fjórir þeirra segja hann sekan. Einn sagði Bolsonaro saklausan en búist er við því að forsetinn fyrrverandi muni áfrýja úrskurðinum. 

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur fordæmt úrskurðinn og segir að ríkisstjórn Bandaríkjanna muni bregðast við þessum „nornaveiðum“.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Vildi eitra fyrir forsetanum og skjóta forseta hæstaréttar

Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseti Brasilíu, hefur verið ákærður fyrir að ætla sér að fella ríkisstjórn Brasilíu og taka völd þar. Hann er meðal annars sakaður um að hafa lagt á ráðin um að myrða forseta Brasilíu og forseta hæstaréttar.

Bolsonaro og félagar kærðir fyrir valdaránstilraun

Brasilíska lögreglan hefur kært Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseta, og nokkra ráðherra í ríkisstjórn hans fyrir tilraun til þess að ræna völdum með því að snúa við úrslitum forsetakosninganna 2022. Bolsonaro stefnir á forsetaframboð eftir tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×